Stjórn Controlant fékk á aðalfundi þann 3. maí heimild til að auka hlutafé í félaginu til þess „ að til að styðja við við stefnu og fram­tíðar­á­form” félagsins.

Óvíst er á hvaða gengi hlutafjáraukningin verður en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur gengi félagsins verið í kringum 70 í viðskiptum sem stóru viðskiptabankarnir hafa séð um undanfarna mánuði.

Sitt sýnist hverjum

VÍS og Sjóvá eiga töluverða hluti í Controlant. Óðinn, fastur dálkur í Viðskiptablaðinu, gerði mismunandi gengi á hlutabréfum tryggingarfélaganna tveggja að umtalsefni í morgun.

VÍS skilaði 135 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Markaðsaðstæðurnar eru enn krefjandi en tryggingareksturinn er einnig slakur.

Óðinn tók eftir misræmi við mat á hlutabréfum í Controlant. Sjóvá mat hlutabréf í Controlant á 105 í ársreikningi 2023 en tók verðið niður í 85 á fyrsta ársfjórðungi.

VÍS mat Controlant á sama gengi og Sjóvá í ársreikningi 2023 en birti óbreytt verð í uppgjöri 1. ársfjórðungs.

Hefði VÍS farið sömu leið og Sjóvá hefði bókfært tap af bréfunum í Controlant orðið 166 milljónir króna og tap af rekstri Skaga samstæðunnar, eins og VÍS heitir nú, að upphæð 31 milljón króna.

Spurningin er hvers vegna munar fimmtungi á mati tryggingarfélaganna tveggja á hlutabréfunum í Controlant.

Eru tilvitnuð orð hluti af umfjöllun Óðins um kaup VÍS á Fossum síðasta sumar. Áskrifendur geta lesið þá umfjöllun hér.

1,5 milljarða króna tap

Viðskiptablaðið fjallaði um afkomu Controlant í byrjun maí. Tekjur félagsins jukust um 39% á milli ára og fóru úr 133 milljónum dala árið 2022 í 185 milljónir dala árið 2023, sam­kvæmt árs­reikningi fé­lagsins.

Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir í fyrra nam 105 milljónum dala en tap var 10,5 milljónir dala sem sam­svarar um 1,5 milljörðum króna á gengi dagsins.