Bandaríski skulda­bréfa­risinn Pimco varar við því að fjár­festar á alþjóð­legum fjár­málamörkuðum van­meti stað­festu Donalds Trump, Bandaríkja­for­seta, um að endur­vekja háa tolla á helstu við­skiptalönd Bandaríkjanna.

Tollarnir voru hluti af stefnu sem hann kynnti á svo­nefndum „frelsis­degi“ 2. apríl síðastliðinn og höfðu þegar áhrif á bæði hluta­bréfa- og skulda­bréfa­markaði í Bandaríkjunum.

Í viðtali við Financial Times, í tengslum við ráð­stefnu Mil­ken Insti­tute í Be­ver­ly Hills, sögðu Dan Ivas­cyn, yfir­maður greiningar hjá Pimco, og Emmanuel Roman, for­stjóri fyrir­tækisins, að Wall Street ætti að taka hótunum Trumps al­var­lega.

„Trúið Trump. Hann trúir á tolla,“ sagði Ivascyn. „Fólk heldur að það sé búið að gefast upp á tollastefnunni og að við séum á leið aftur til ástandsins fyrir „frelsisdag“ Trump. Við erum ekki vissir um það.“

Markaðir of bjartsýnir

Eftir að Trump til­kynnti 90 daga frestun á flestum tollum róuðust markaðir að ein­hverju leyti, og hluta­bréfa­vísi­talan S&P 500 náði sér á strik. Hins vegar telur Ivas­cyn að fjár­festar séu of bjartsýnir á að endan­leg niður­staða verði mild.

Pimco áætlar að lokaniður­staðan verði vægari en í fyrstu var kynnt, en áhrifin geti engu að síður orðið um­tals­verð.

Tollarnir gætu ýtt undir verðbólgu á sama tíma og hag­vöxtur dregst saman, sem gæti skapað aðstæður sem kallaðar eru kyrrstöðuverðbólga (e. stagflation), þ.e. sam­dráttur með hækkandi verðlagi.

„Við gætum vel átt von á sam­drætti,“ sagði Ivas­cyn og bætti við að líkur á efna­hags­sam­drætti væru nú þær mestu í nokkur ár. Sam­bæri­leg viðvörun kom einnig frá Seðla­banka Bandaríkjanna í vikunni, þar sem bent var á aukna óvissu vegna efna­hags­stefnu Trumps.