Bandaríski skuldabréfarisinn Pimco varar við því að fjárfestar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vanmeti staðfestu Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, um að endurvekja háa tolla á helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna.
Tollarnir voru hluti af stefnu sem hann kynnti á svonefndum „frelsisdegi“ 2. apríl síðastliðinn og höfðu þegar áhrif á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði í Bandaríkjunum.
Í viðtali við Financial Times, í tengslum við ráðstefnu Milken Institute í Beverly Hills, sögðu Dan Ivascyn, yfirmaður greiningar hjá Pimco, og Emmanuel Roman, forstjóri fyrirtækisins, að Wall Street ætti að taka hótunum Trumps alvarlega.
„Trúið Trump. Hann trúir á tolla,“ sagði Ivascyn. „Fólk heldur að það sé búið að gefast upp á tollastefnunni og að við séum á leið aftur til ástandsins fyrir „frelsisdag“ Trump. Við erum ekki vissir um það.“
Markaðir of bjartsýnir
Eftir að Trump tilkynnti 90 daga frestun á flestum tollum róuðust markaðir að einhverju leyti, og hlutabréfavísitalan S&P 500 náði sér á strik. Hins vegar telur Ivascyn að fjárfestar séu of bjartsýnir á að endanleg niðurstaða verði mild.
Pimco áætlar að lokaniðurstaðan verði vægari en í fyrstu var kynnt, en áhrifin geti engu að síður orðið umtalsverð.
Tollarnir gætu ýtt undir verðbólgu á sama tíma og hagvöxtur dregst saman, sem gæti skapað aðstæður sem kallaðar eru kyrrstöðuverðbólga (e. stagflation), þ.e. samdráttur með hækkandi verðlagi.
„Við gætum vel átt von á samdrætti,“ sagði Ivascyn og bætti við að líkur á efnahagssamdrætti væru nú þær mestu í nokkur ár. Sambærileg viðvörun kom einnig frá Seðlabanka Bandaríkjanna í vikunni, þar sem bent var á aukna óvissu vegna efnahagsstefnu Trumps.