Verslanir í Bandaríkjunum eru nú að hvetja viðskiptavini til að kaupa vörur frá þeim áður en fyrirhugaðir tollar Donalds Trumps taka gildi. WSJ greinir frá.
Trump hefur lofað að leggja 60% toll á allar vörur frá Kína og 25% toll á vörur frá Mexíkó og Kanada.
Húsgagnaverslunin Finally Home Furnishings er ein af þeim verslunum sem hafa vakið athygli á þessu en á Facebook-síðu þeirra er verið að auglýsa svokallað „Pre-Tariff Sale“.
Í færslunni varar eigandi verslunarinnar, Sydney Arnold, við því að sumar vörur gætu tvöfaldast í verði og ákváðu sumir viðskiptavinir að leggja inn pantanir í kjölfarið. Hún segist einnig ætla að auka viðleitni sína með tölvupóstsamskiptum til að láta sem flesta vita.
Aðrar verslanir sem selja vörur eins og útivistarbúnað, límmiða, snyrtivörur og fleira hafa gert slíkt hið sama. Það er hins vegar óljóst hvort tollarnir verða að veruleika og hversu mikil áhrif þeir munu koma til með að hafa á verðlag.
Áhrifavaldar á TikTok hafa einnig tekið þátt í æðinu og eru farnir að hvetja fylgjendur til að kaupa uppáhaldsvörur sínar í miklu magni. Aðrir inni á samfélagsmiðlinum hafa verið að benda fólki á hversu lengi má geyma vörur eins og sjampó og mat fyrir þá sem vilja byrgja sig upp.