Stjórn Eikar fasteignafélags mælir gegn því að hluthafar samþykki valfrjálst yfirtökutilboð Regins vegna þess að sá eignarhlutur sem hluthöfum er boðinn í sameinuðu félagi, samkvæmt tilboðinu, er of lítill.
Rökstyður stjórnin álit sitt í ítarlegri greinargerð sem var send til Kauphallarinnar í kvöld en þar er m. a. fjallað um álit stjórnarinnar á framtíðaráformum tilboðsgjafa og hvaða áhrif hún telur að tilboðið geti haft á hagsmuni félagsins, störf stjórnenda og starfsmanna þess, sem og staðsetningu starfsstöðva félagsins.
Stjórn Regins tilkynnti þann 8. júní að hún hefði ákveðið að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar. Samkvæmt tilboðinu myndu hluthafar Eikar fá 46% útgefins hlutafjár í Regin.
Gengi Eikar var þann dag 10,4 krónur en gengi tilboðsgjafa var 23 krónur. Gengi Eikar hefur hækkað um 13,5% síðan þá á meðan gengi Regins hefur lækkað um 5,2% miðað við dagslokagengi gærdagsins.
Hlutfall hluthafa Eikar í sameinuðu félagi væri því 47,9% en ekki 46%.
Telja 50,6% sanngjarnt hlutfall
Í greinargerð stjórnar Eikar segir að Arctica Finance hafi veitt félaginu ráðgjöf í ferlinu en að þeirra mati væri sanngjarnt hlutfall hluthafa Eikar 50,6% á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins. Miðast matið við 6,2% fjármagnskostnað hjá báðum félögum.
Í greinargerðinni segir einnig að allir stjórnarmenn Eikar sem einnig eigi hlut í félaginu hyggist hafna tilboði Regins.
Starfsfólk Eikar hefur einnig skilað inn áliti sínu á yfirtökutilboðinu til stjórnarformanns og forstjóra en í því segir að almennt telji starfsmenn að yfirtökutilboðið hafi slæm áhrif á störf starfsfólks félagsins.
Starfsfólk Eikar upplifað ótta
„Yfirtökutilboðið veldur því að margir upplifa ótta við að missa starf sitt, annars konar óvissu, svo sem vegna tilfærslu starfsstöðvar, og aukið álag,” segir í áliti starfsfólks Eikar sem fylgir greinargerð stjórnarinnar til hluthafa.
Að mati starfsmanna hafa fjöldi verkefna tafist eða stöðvast vegna þess álags sem hefur fylgt yfirtökutilboðinu.
„Innan félagsins starfar samheldinn hópur með ríka vinnustaðarmenningu og starfsfólki líst almennt illa á að henni verði stokkað upp og hópnum tvístrað,” segir þar enn fremur.
„Þróunareignir” í stýringu eða á sölu
Í byrjun júlí, 4. júlí, samþykkti hluthafafundur Regins mótatkvæðalaust heimild til stjórnar til hækkunar hlutafjár til að efna uppgjör á yfirtökutilboðinu. Gildistími valfrjálsa yfirtökutilboðsins var til 18. september en var síðar framlengt til 16. október þann 30. ágúst
Þann sama dag tilkynnti Reginn Eik um breytingu á framtíðaráformum hvað varðar eignir Eikar sem Reginn hefur skilgreint sem þróunareignir Eikar.
Í upphaflegu tilboðsyfirliti var ráðgert að þessar þróunareignir, sem eru andvirði um 16 milljarðar króna, yrðu settar í sérstakt félag og samhliða gerður eignastýringarsamningur við Klasa ehf.
Eignastýringasamningurinn átti að innihalda fasta þóknun ásamt árangurstengingu en með því ætlaði Reginn að lækka rekstarkostnað.
Samkvæmt breytingum sem bárust Eik þann 30. ágúst var gert ráð fyrir að meirihluti þróunareigna Eikar yrðu seldar og minnihluti þróunareigna yrðu settar í umsjón Klasa en rétt er að taka fram að Klasi er í jafnri eigu Regins, Haga og KLS Eignarhaldsfélags sem stjórnarformaður Regins er 46,5% eigandi að.
Í greiningargerð stjórnar Eikar til hluthafa segir að ekki hafa komið fram upplýsingar frá Regin um áætlaðan árlegan kostnað við einkastýringarsamninginn við Klasa né hvert kunni að vera hlutfall árangurstengingar eða hvert árangursviðmið er.
Að mati stjórnar er því erfitt að meta hve miklu leyti rekstrarkostnaður breytist við slíka úthýsingu.
Sem fyrr segir leggst stjórn gegn því að hluthafar samþykki yfirtökutilboðið en hluthafafundur Eikar fer fram á föstudaginn.
Í lok júlí var tilkynnt um að stjórnir Reita og Eikar hefðu ákveðið að hefja viðræður um mögulegan samruna.
Bjarni Kristján Þorvarðarson formaður stjórnar fasteignafélagsins Eikar sagði í fjölmiðlum í byrjun mánaðar að einu samrunaviðræðurnar sem væru í gangi núna væru við Reiti.