Kínversk yfirvöld hafa uppfært listann yfir vörur sem þegnar í landinu geta skilað inn og fengið 20% afslátt á nýrri vöru. Með þessu vilja stjórnvöld styðja við hagkerfið en neysla í landinu hefur verið á niðurleið undanfarin misseri.
Listinn inniheldur nú hluti eins og örbylgjuofna, uppþvottavélar og hrísgrjónavélar. Sjónvörp, símar, spjaldtölvur og snjallúr voru þegar á listanum.
Yfirvöld sögðu í gær að þau myndu verja rúmlega 11 milljörðum dala í verkefnið og bættu við að áætlunin, sem tók gildi í mars í fyrra, hafi þegar sýnt fram á jákvæðar niðurstöður. Sumir hagfræðingar efast þó um að kerfið muni duga til að örva neyslu.
„Þó svo að kerfið hafi stutt við sölu á tilteknum vörum, eins og bílum og heimilistækjum, þá hefur það ekki leitt til heildaraukningar í almennum útgjöldum,“ segir Harry Murphy Cruise, yfirmaður Kínahagfræðideildarinnar hjá Moody‘s Analytics.
Kínversk yfirvöld munu þá koma til með að kynna nýjustu hagtölur fyrir árið 2024 í næstu viku en stjórnvöld hafa gefið til kynna að hagvöxtur á árinu hafi verið um 5%.