Í tilefni af Nýsköpunarvikunni standa gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center (BDC), Háskóli Íslands og CSC fyrir opnum viðburði sem snýr að framtíð gervigreindar og mikilvægi þess að byggja upp innviði, mannauð og stefnumótun til að mæta ört vaxandi þörfum hennar.
CSC er finnsk ríkisstofnun sem sérhæfir sig í háafkastaútreikningum (e. High-Performance Computing - HPC), gagnavinnslu og upplýsingatækni fyrir vísindasamfélagið.
Þeir reka m.a. LUMI-ofurtölvuna, sem er ein öflugasta og umhverfisvænasta ofurtölva heims, staðsett í Kajaani í Finnlandi.
Viðburðurinn, Brýnar aðgerðir og undirbúningur fyrir gervigreind og háafkastaútreikning (e. Urgent Action for Al & HPC Readiness), fer fram fimmtudaginn 15. maí frá kl. 13:00 til 17:00 í Grósku við Eiríksgötu. Skráning er öllum opin hér.
„Við stöndum á tímamótum þar sem framtíð gervigreindar og háafkastaútreikninga krefst markvissrar stefnumótunar, fjárfestinga og alþjóðlegs samstarfs. Ísland hefur einstakt tækifæri til að gegna hlutverki, ekki aðeins vegna sjálfbærra gagnavera og hreinnar orku, heldur einnig með því að leggja áherslu á menntun og þekkingu sem styður við þessa tækniþróun. Með þessu samtali viljum við hvetja til aðgerða og tryggja að Ísland verði í fararbroddi á þessari spennandi vegferð,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri og meðstofnandi Borealis Data Center.
Gervigreind, ofurtölvur og framtíðin
Leiðandi sérfræðingar frá Íslandi, Finnlandi og löndum víðar í Evrópu ræða hvernig Norðurlöndin geta orðið í fararbroddi í þróun sjálfbærra gagnavera og gervigreindarinnviða.
Á dagskrá eru tvö lykilerindi og tvennar pallborðsumræður þar sem rætt verður hvernig hægt er að tryggja að rétt kunnátta, kerfi og stefnumótun styðji við fjárfestingar í gervigreindarinnviðum.
Sérstök áhersla verður lögð á svokallaðar „AI Factories“ og „AI GigaFactories“ Evrópu og hvernig Ísland getur gegnt lykilhlutverki í þessari þróun, ekki aðeins með umhverfisvænum innviðum heldur einnig í uppbyggingu sérhæfðs mannauðs sem þarf til að knýja áfram gervigreindaröldina.
Meðal ræðumanna verður Lilja Dögg Jónsdóttir frá Almannarómi, sem mun ræða framtíðarsýn Íslands í gervigreind og mikilvægi íslenskrar tungu í þróun slíkra lausna.
HPC stendur fyrir High-Performance Computing, eða háafkastaútreikningar, sem fela í sér notkun öflugra tölvukerfa til að sinna flóknum reikniaðgerðum, t.d. í veðurspám, erfðafræði, orkukerfum og gervigreind.
Nánari upplýsingar má finna hér.