Ríkisendurskoðun telur tækifæri til hagræðingar með aukinni samvinnu Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar þegar kemur að gagnaöflun og greiningu á íslenskum vinnumarkaði.
Í nýrri skýrslu til Alþingis hvetur Ríkisendurskoðun stjórnvöld til að kanna ávinning þess að samræma úrvinnslu og greiningu umræddra gagna. Það gæti m.a. dregið úr misvísandi upplýsingum um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði.
Bæði Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun ber að upplýsa stjórnvöld og aðra aðila vinnumarkaðarins um þennan málaflokk. Aðferðafræði stofnananna er hins vegar ólík, sem m.a. leiðir til þess að nokkru munar á birtum tölum um framboð vinnuafls og mælt atvinnuleysi milli stofnanna.
Vinnumálastofnun mælir skráð atvinnuleysi sem sýnir hversu margir eru skráðir atvinnulausir og hafa því eftir atvikum rétt til atvinnuleysisbóta.
Hagstofan framkvæmir vinnumarkaðsrannsókn sem byggir á úrtaki úr þjóðskrá og er gerð símleiðis. Er henni ætlað að afla upplýsinga um störf og atvinnuleit.
Ólíkt skráðu atvinnuleysi fangar vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar mögulega aðra sem eru án atvinnu en auk þess fjölda annarra mikilvægra hagtalna um vinnumarkað, svo sem vinnutíma, hvar fólk starfar o.fl.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141311.width-1160.png)
Forsætisráðuneytið tekur undir
Forsætisráðuneytið tekur undir að gera megi úrbætur á vinnslu og birtingu opinberrar vinnumarkaðstölfræði og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni í starfsemi þeirra stofnana sem að henni vinna og bættri upplýsingagjöf til stjórnvalda og almennings.
Ráðuneytið bendir á að forsætisráðherra skipaði í september síðastliðnum hagtalnanefnd sem vinnur tillögur að bættri og samræmdri hagskýrslugerð og hvernig megi efla Hagstofu Íslands sem miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar. Nefndin á að skila tillögum sínum eigi síðar en 1. maí næstkomandi.
Forsætisráðuneytið segir þó að rökrétt og eðlilegt geti verið að fleiri en ein mæling, byggð á ólíkum aðferðafræðilegum grunni, sé gerð á atvinnuleysi á hverjum tíma. Mælingarnar séu upplýsandi hvor með sínum hætti.
Mælingarnar tvær nýtist samhliða við að leggja heildarmat á stöðu og þróun vinnumarkaðarins og eru nýttar við að byggja undir stefnu og ákvarðanir stjórnvalda.
Stofnanirnar átt í samtali
Í skýrslunni er að finna viðbrögð Vinnumálastofnunar og Hagstofunnar við ábendingum Ríkisendurskoðunar.
Vinnumálastofnun segist hafa átt í góðu samtali við Hagstofuna á árinu 2024 um aukið samstarf milli stofnananna og hafa væntingar um áframhaldandi samstarf og frekara samstarf.
Hagstofa Íslands tekur undir þá meginniðurstöðu skýrslunnar að hægt er að auka gæði tölulegra upplýsinga um vinnumarkaðinn með auknu samstarfi milli Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar.
Hagstofan bendir hins vegar á að upplýsingar hennar um atvinnuleysi og atvinnuþátttöku byggi á alþjóðlegri skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og Eurostat og eru hluti af alþjóðlegri mælingu atvinnuleysis sem bundin er í lög samkvæmt EES samkomulaginu.
„Varðandi aukið samræmi í aðferðafræði mælinga á innlendum vinnumarkaði þarf að gæta að ólíkum hlutverkum stofnananna. Hagstofan þarf að uppfylla alþjóðlega staðla í sinni mælingu og getur ekki breytt út frá þeirri aðferðafræði til að þjóna ólíkum þörfum innanlands.“
Hagstofan segir að innlendri þörf sem er umfram lagalegar skuldbindingar sé því mætt með því að útbúa sérstakar hagtölur eða vinna sérsniðnar vinnslur sem taka mið af þörfum innlendra notenda.
„Þó svo að ekki sé unnt að breyta út frá alþjóðlegum skilgreiningum Hagstofunnar þá er hægt að auka samræmi milli mælinga með því að samnýta gögn og upplýsingar milli stofnananna til að auka gæði niðurstaðna. Þannig mætti samræma skráð atvinnuleysi við mælingar Hagstofunnar á mannfjölda og vinnuafli. Enn fremur býr Vinnumálastofnun yfir gögnum sem að nýtast í hagskýrslugerð.”