Kínversk stjórnvöld hafa hvatt ríkisfyrirtæki til að hætta að styðja sig við þjónustu frá fjórum stærstu endurskoðunarfyrirtækjum heims.

Í umfjöllun Bloomberg segir að kínversk stjórnvöld horfi til þess að draga úr áhrifum alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja með tengingar við Bandaríkin, m.a. til að tryggja betur gagnaöryggi þjóðarinnar og styðja við innlend endurskoðunarfyrirtæki.

Skilaboðin eru ekki ný af nálinni en stjórnvöld eru þó sögð hafa ítrekað nýlega að ríkisfyrirtæki skuli velja önnur endurskoðunarfyrirtæki heldur en þau fjögur stærstu – Deloitte, KPMG, Ernst & Young og PwC. Engin frestur hefur þó verið gefinn og búist er við að fyrirtækin fái svigrúm til að leyfa gildandi samningum að renna sitt skeið.

Erlend dótturfyrirtæki mega áfram velja bandarísk endurskoðunarfyrirtæki en innlend móðurfélög þeirra eru hvött til þess að styðja sig við endurskoðunarfyrirtæki í Kína eða Hong Kong, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.

Fari svo að kínversk ríkisfyrirtæki leiti til minna þekktra endurskoðunarfyrirtækja gæti það haft í för með sér að erfiðara verði fyrir þau að sækja sér fjármagn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.