Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur boðið skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

Um er að ræða þrjá sjálfstætt starfandi háskóla: Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að skert framlög hafi leitt til þess að skólarnir hafa innheimt skólagjöld fyrir nám hvers nemanda. Gjöldin geta numið 1,5-2 milljónum króna fyrir þriggja ára grunnnám og tveggja ára meistaranám. Samtals geta gjöldin fyrir 5 ára háskólanám því verið um 3-4 milljónir króna.

„Sú hugmyndafræði að fé fylgi nemendum að fullu óháð því hvaða skóla þeir sækja er ekki ný af nálinni í menntakerfinu, þó svo að hún sé það á háskólastiginu. Í anda þess að fé fylgi nemanda geta háskólarnir fallið frá skólagjöldum sínum gegn því að fá fullt opinbert framlag. Ég tel sanngjarnt að nemendur hafi jöfn tækifæri til náms, óháð rekstrarformi skóla, og að þeir sem velji að stunda nám í sjálfstætt starfandi háskóla standi jafnfætis þeim sem stundi nám í hinum opinberu skólum. Ríkið á ekki að gera upp á milli nemenda.“ segir Áslaug Arna.

Jafnframt segir í tilkynningu að kostnaðarauki ríkisins sem hlytist af 100% fjármögnun til sjálfstætt starfandi háskóla myndi ráðast af nokkrum þáttum, eins og hversu margir skólar munu þiggja boðið og hvort þeir vilji að bæði bakkalár- og meistarastigið yrðu fjármögnuð að fullu.

„Hver sem niðurstaðan yrði myndi hún að hámarki kosta um 2 milljarða króna sem rúmast innan ramma fjárheimilda háskólastigsins.“