Í ávarpi sínu á Peningamálafundi Viðskiptaráðs hvatti Ari Fenger, formaður ráðsins, Seðlabankann til að „hafa meiri trú á eigin aðgerðum“. Hann sagðist telja fátt kalla á harðari aðgerðir í peningastefnu „þrátt fyrir verðbólguhorfur“ og nefndi í þeim efnum að áhrif vaxtahækkana væru enn að koma fram.

„Við þurfum líka að horfa til lengri tíma og átta okkur á því hversu harkalega lendingu húsnæðismarkaðarins á að knýja fram, en þar er augljóst að stýrivaxtahækkanirnar eru farnar að hafa veruleg áhrif,“ sagði Ari.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í gærmorgun um að hún hefði ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% en varaði þó við að verðbólguhorfur bendi til þess að nefndin gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Nefndin sagði óvissu um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi hafa átt stóran þátt í þeirri ákvörðun að halda vöxtum óbreyttum.

Launahækkanir samræmast ekki verðbólgumarkmiði

Verðbólga mældist 7,9% í október og hjaðnaði lítillega frá fyrri mánuði. Verðbólga hefur mælst yfir 7% frá apríl á síðasta ári. Ari segir að Íslandi hafi tekist verr en nágrannaríkjunum að ná tökum á verðbólgunni.

„[Þ]að verður að segja eins og er að hluti þess vanda er heimatilbúinn. Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að kjarasamningar með yfir 7% launahækkunum hefðu áhrif, ekki síst á jafnþöndum vinnumarkaði og hér.“

Hann vísar í að árshækkun launavísitölunnar í september sl. hafi verið nærri 11%. Ari segir að hvort sem litið sé til síðustu 10 eða 20 ára hafi launahækkanir verið langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans og því sem eðlilegt er að vænta af framleiðnivexti.

„Á Íslandi hafa laun hækkað um það bil þrefalt meira en þekkist á Norðurlöndunum og Evrusvæðinu. Að mínu mati þykir mér þetta gleymast þegar bent er á hversu vel öðrum þjóðum, í samanburði við okkur, hefur tekist upp í baráttunni við verðbólguna.“

Hvað verðbólguna varðar leggur Ari til að stjórnvöld leggi lóð sitt á vogarskálarnar með því að frysta krónutölugjöld eins og gert var árin 2014-2015. Jafnframt leggur hann til að tryggingargjaldið „sem er einfaldlega skattur á að hafa fólk í vinnu“ verði lækkað.

„Örugglega fín tímasetning, svona rétt þegar samningar losna“

Ari minnist einnig á síðustu kjaraviðræður og segist vona að það takist að komast í gegnum næstu kjarasamninga án kostnaðarsamra átaka á vinnumarkaði.

„Þar hefði ég viljað sjá ríkissáttasemjara fá nauðsynlegar heimildir til að grípa inn í atburðarásina. Uppákoma síðasta vetrar, þar sem hann var sendur til baka með miðlunartillögu, sýndi glöggt hversu máttlaust þetta embætti er. Og þrátt fyrir yfirlýsingar í stjórnarsáttmála og loforð um að bætt yrði úr, hefur ekkert gerst“.

Fyrirhugað frumvarp Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara verður ekki lagt fram fyrr en eftir áramót. Guðmundur Ingi skipaði starfshóp í júní sl. sem hafði m.a. það hlutverk að kanna hvort og þá hvernig rétt sé að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi.

„Verkalýðshreyfingin tók ekki vel í málið, enda varla við öðru að búast svo vinnumarkaðsráðherra ákvað að leggja ekki fram breytingar á vorþingi, ekki á haustþingi en setti málið í nefnd og boðar að frumvarpið komi fram eftir áramót. Það er örugglega fín tímasetning, svona rétt þegar samningar losna.“