Septembermánuður hefur í gegnum tíðina verið vinsæll mánuður fyrir frumútboð en samkvæmt The Wall Street Journal hafa markaðssveiflur ágústmánaðar valdið því að fjölmörg félög eru að endurskoða áætlanir sínar um skráningar.
Félögin eru um þessar mundir að huga að því hvort það eigi að ljúka við skráningaráætlanir sínar snemma í mánuðinum eða bíða þangað til 2025.
Samkvæmt samtölum WSJ við lögmenn, fyrirtækjaeigendur og fjárfestingabanka er ekki einungis óróleiki markaðarins sem gefur þeim hugarangur heldur fylgir einnig forsetakosningunum í nóvember töluverð óvissa.
Ómögulegt sé að spá fyrir um hvernig markaðurinn bregst við niðurstöðu kosninganna og þá sé einnig óvíst um hversu mikið vextir verða lækkaðir fyrir árslok.
Kínverska tæknifyrirtækið WeRide frestaði á dögunum fyrirhuguðu frumútboði sínu. Miðasölufyrirtækið StubHub, sem rekur einn stærsta eftirmarkað með miða á alls kyns viðburði, frestaði einnig frumútboði sínu fram í lok september en samkvæmt heimildum WSJ verður því frestað að nýju fram á nýtt ár.
Örflöguframleiðandinn Cerebras er einnig sagður vera að vinna í að fresta frumútboði sínu fram á næsta ár.
Það sem af er ári hafa fyrirtæki sótt um 25 milljarða Bandaríkjadali í gegnum hlutafjárútboð í tengslum við skráningar en það er töluvert lægra meðaltal síðustu ára sem stendur í 55 milljörðum dala.