Tekjur Alfreðs ehf., sem heldur úti atvinnuleitarmiðli og hefur þróað kerfi fyrir fyrirtækja í kringum starfsauglýsingar og ráðningar, námu 632 milljónum króna árið 2023 og jukust um 9,9% á milli ára.

Félagið hagnaðist um 163 milljónir í fyrra samanborið við 139 milljónir árið 2022. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fór úr 193 milljónum í 201 milljón milli ára. Ársverk voru 10 í fyrra líkt og árið áður.

Alfreð atvinnuleitarmiðlinn fór í loftið árið 2013. Félagið hefur á síðustu árum verið að hasla sér völl á erlendri grundu og er komið með starfsemi í Tékklandi, Færeyjum og á Möltu.

Alfreð gef út nýtt app, Giggó, í byrjun þessa árs en forritinu er ætlað að hjálpa íslensku „gigg-samfélagi“. Í Giggó geta einstaklingar og fyrirtæki sett inn smáauglýsingar um verkefni sem þarf að vinna og verktakar geta boðið sig fram í verkið.

Greiða út 100 milljónir

Eignir Alfreðs voru bókfærðar á 373 milljónir króna í árslok 2023 og eigið fé var um 275 milljónir.

Alfreð hyggst greiða út 100 milljónir króna í ár vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins. Félagið greiddi einnig út 100 milljónir í fyrra og á árinu 2022.

Halldór Friðrik Þorsteinsson og Vernharður Reynir Sigurðsson eru aðaleigendur Alfreðs með sitthvorn 48,7% eignarhlut í félaginu.