Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech hyggst sækja allt að 150 milljónir dala í fjármögnun eða allt að 22 milljarða króna „innan skamms eða meðallangs tíma“. Joel Morales, fjármálastjóri Alvotech, greindi frá þessu á uppgjörsfundi í gær. Verið sé að horfa til nokkurra leiða í þeim efnum, þar á meðal útgáfu almenns eða forgangshlutfjár ásamt breytanlegum skuldabréfum.

Hann tók fram að hluti af hinni fyrirhuguðu fjármögnun gæti verið í gegnum gildandi samkomulag sitt við vogunarsjóðinn Yorkville um valkvæðan sölurétt á hlutabréfum félagsins, svonefndan SEPA (e. Standby Equity Purchase Agreement). Samkomulagið við Yorkville gengur út að það bjóðist til að kaupa hlutafé í Alvotech fyrir allt að 150 milljónir dollara sem Alvotech geti dregið á næstu þrjú árin eftir þörfum.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í sumar kusu 96% hluthafa sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II (OACB) að leysa inn hlut sinn í félaginu fyrir skráningu Alvotech í Nasdaq kauphöllina í New York í júní.

Því runnu aðeins tæplega 10 milljónir dollara af hlutafé úr SPAC-félaginu í sameinað félag, um 1,4 milljarðar króna, í stað 250 milljóna dollara, um 34,5 milljarða króna sem hefði gerst ef enginn hluthafi hefði óskað eftir innlausnar.

„Eins og við minntumst á við síðasta uppgjör, þá leiddu háar innlausnir til minni innspýtingu frá fjárvörslureikningi [sérhæfða yfirtökufélagsins] þegar við lukum við samrunann við OACB í júní síðastliðnum. Þar af leiðandi höfum við verið að kanna fjármögnunarleiðir til að styrkja lausafjárstöðuna okkar frekar,“ sagði Joel.

20 milljarða fjármögnun kynnt í gær

Alvotech tilkynnti í gær um að það hefði tryggt sér aðgengi að nýrri fjármögnun að fjárhæð 136 milljónir dala eða sem nemur tæplega 20 milljörðum króna. Hún felur m.a. í sér stækkun á flokki veðskuldabréfa um 10,2 milljarða króna með viðbótarfjárfestingu frá stórum erlendum hluthöfum sem eignast auk þess áskriftarrétt að 2,5% af almennum hlut í Alvotech.

Þá keypti Alvotech verksmiðjuhúsnæði fyrirtækisins í Vatnsmýri, sem áður var leigt, af dótturfélagi Aztiq, fjárfestingarfélagi Róberts Wessman. Í skiptum fær Aztiq breytilegt víkjandi skuldabréf að fjárhæð um 11,7 milljarðar króna.

Í tengslum við kaupin var gerður nýr lánasamningur við Landsbankann, sem eykur fjármögnun Alvotech um u.þ.b. 2,3 milljarða króna.

„Þessi viðskipti gefa okkur beint eignarhald yfir aðstöðunni og losar okkur undan framtíðar leigugreiðslum,“ sagði Joel um þessa „stefnumiðuðu ákvörðun“ á fundinum í gær.

Hlutabréfaverð í Alvotech stendur nú í 6,07 dollurum á hlut en útboðsgengið við skráningu á markað í sumar nam 10 dollurum á hlut.

Höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýrinni.
Höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýrinni.