Í kjölfar kaupa Golfhallarinnar á Golffélaginu, sem Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni, mun síðarnefnda félagið ekki starfa áfram að óbreyttu, heldur færist starfsemin inn í Golfhöllina.

Á næstu tólf til átján mánuðum er stefnt að því að stækka Golfhöllina til muna og fjölga golfhermum talsvert.

„Það er jafnframt á dagskrá hjá okkur að koma upp hermum þar sem verður lyklalaust aðgengi eins og var hjá Golffélaginu,“ segir Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri Golfhallarinnar.

Golfhöllin opnaði á Covidtímum líkt og Golffélagið, í október 2021. Pétur og kona hans, Margrét Þorvaldsdóttir, sem er hans hægri hönd í rekstrinum, byrjuðu í golfinu fyrir þrettán árum síðan.

„Ég seldi nokkuð stórt fyrirtæki sem ég átti og keypti í kjölfarið golfhermi fyrir fjölskylduna og vini. Þá fæddist sú hugmynd að setja upp golfhermastöð og úr varð að við keyptum húsnæði rétt hjá skrifstofunni minni á Granda þar sem við settum upp fjórtán herma til viðbótar.“

Samstarf við veitingastaði

Pétur segir að eftir því sem fleiri kynnist golfhermunum muni notkunin aukast, ekki bara á Íslandi heldur á öllu markaðssvæði TrackMan.

„Aðalvertíðin hefur verið frá janúar til apríl. Haustmánuðirnir hafa síðan verið að taka við sér. Nú er stóra verkefnið að byggja upp sumartraffíkina og tel ég að hún muni byggjast upp þegar fleiri átta sig á því hvað þetta er þægilegt, sérstaklega fyrir þá sem vilja kennslu í golfi. Það er nú þannig með golfhermana að aðgengi er að öllu jöfnu auðveldara heldur en að útivöllunum. Þar að auki ertu öruggur með veður og hefur um 340 velli til að velja úr.“

Hann bætir við að fjöldi herma félagsins opni á möguleikann fyrir stærri hópa að koma við og spila golf. Golfhöllin sjái um að setja upp mót fyrir ýmiss konar samkomur, bæði fyrir fyrirtæki og vinahópa.

„Við setjum upp mót fyrir slíka hópa og sjáum um veitingar, en við erum komnir í samstarf við nokkra veitingaaðila hér á Grandasvæðinu. Síðan getur fólk valið úr nokkuð mörgum kennurum hjá okkur ef það vill koma á námskeið eða í einkatíma.

Ragnhildur Sigurðardóttir, sú kunna golfkona og golfkennari, hefur nýtt sér Golfhöllina til kennslu undanfarin ár auk þess sem hún hefur verið óþreytandi að bjóða fólki upp á námskeið þar sem hún kennir fólki að nota hermana.“

Nánar er fjallað um kaup Golfhallarinnar á Golffélaginu í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.