Bandarísk stjórnvöld hefja nú aftur innheimtuaðgerðir vegna vangoldinna námslána. Tugir milljóna einstaklinga eiga að sögn Wall Street Journal í hættu á að verða fyrir skerðingu skattaendurgreiðslna, bóta og jafnvel launa á næstu vikum.
Eftir margra ára hlé á greiðslum og innheimtu námslána í kjölfar heimsfaraldursins hafa stjórnvöld í Washington breytt um stefnu.
Áætlað er að um fimm milljónir lántaka hafi ekki greitt af námslánum sínum í að minnsta kosti níu mánuði og teljist því vera í vanskilum.
Hundruð þúsunda til viðbótar gætu lent í sömu stöðu á næstu misserum. Þeir sem standa verst fá í vikunni sent formlegt innheimtubréf frá fjármálaráðuneytinu um að þeir eigi yfir höfði sér að greiðslur til þeirra verði haldlagðar af ríkinu innan mánaðar.
Með þessari ákvörðun snýr Trump-stjórnin baki við fyrri stefnu ríkisstjórnar Joes Bidens, sem hafði reynt að fella niður hluta námslána og milda greiðslubyrði lántaka.
Greiðsluhléi sem hófst í faraldrinum lauk árið 2023, en Biden-stjórnin framlengdi frestinn til loka kosningaársins 2024. Nú eru þau úrræði liðin undir lok og nýr tími gengur í garð.
Sjónarmið núverandi stjórnvalda eru skýr að sögn WSJ: ríkið hafi hvorki heimild né vilja til að afskrifa skuldir að hluta eða í heild, heldur beri að innheimta þá fjármuni sem hafa safnast upp með öllum þeim leiðum sem lög bjóða.
Fjöldi lántaka segist ekki hafa áttað sig á að greiðsluskylda væri hafin á ný, fyrr en þeir sáu lánshæfismat sitt hrapa. Einn þeirra er Loren Linton, flugvirki í Indiana, sem þurfti nýlega að hætta við ferð til New York og hefja yfirvinnu til að geta staðið undir afborgunum af 11 þúsund dollara námsláni.
„Þetta átti að bæta framtíð okkar, ekki skerða hana,“ segir Linton við WSJ, sem einnig er að aðstoða börnin sín við háskólanám.
Áhrifin eru ekki einangruð, þar sem hagkerfið sýnir teikn um hægari vöxt samhliða því að ráðstöfunartekjur hafa minnkað og fyrirtæki dregið úr ráðningum. Innheimtuaðgerðir ríkisins gætu því þrengt að heimilum sem þegar búa við þröngan kost.