Bandarísk stjórn­völd hefja nú aftur inn­heimtu­að­gerðir vegna van­goldinna námslána. Tugir milljóna ein­stak­linga eiga að sögn Wall Street Journal í hættu á að verða fyrir skerðingu skatta­endur­greiðslna, bóta og jafn­vel launa á næstu vikum.

Eftir margra ára hlé á greiðslum og inn­heimtu námslána í kjölfar heims­far­aldursins hafa stjórn­völd í Was­hington breytt um stefnu.

Áætlað er að um fimm milljónir lán­taka hafi ekki greitt af námslánum sínum í að minnsta kosti níu mánuði og teljist því vera í van­skilum.

Hundruð þúsunda til viðbótar gætu lent í sömu stöðu á næstu misserum. Þeir sem standa verst fá í vikunni sent form­legt inn­heimtu­bréf frá fjár­málaráðu­neytinu um að þeir eigi yfir höfði sér að greiðslur til þeirra verði hald­lagðar af ríkinu innan mánaðar.

Með þessari ákvörðun snýr Trump-stjórnin baki við fyrri stefnu ríkis­stjórnar Joes Bidens, sem hafði reynt að fella niður hluta námslána og milda greiðslu­byrði lán­taka.

Greiðslu­hléi sem hófst í far­aldrinum lauk árið 2023, en Biden-stjórnin fram­lengdi frestinn til loka kosningaársins 2024. Nú eru þau úrræði liðin undir lok og nýr tími gengur í garð.

Sjónar­mið núverandi stjórn­valda eru skýr að sögn WSJ: ríkið hafi hvorki heimild né vilja til að af­skrifa skuldir að hluta eða í heild, heldur beri að inn­heimta þá fjár­muni sem hafa safnast upp með öllum þeim leiðum sem lög bjóða.

Fjöldi lán­taka segist ekki hafa áttað sig á að greiðslu­skylda væri hafin á ný, fyrr en þeir sáu láns­hæfis­mat sitt hrapa. Einn þeirra er Loren Lin­ton, flug­virki í Indiana, sem þurfti ný­lega að hætta við ferð til New York og hefja yfir­vinnu til að geta staðið undir af­borgunum af 11 þúsund dollara námsláni.

„Þetta átti að bæta framtíð okkar, ekki skerða hana,“ segir Lin­ton við WSJ, sem einnig er að að­stoða börnin sín við háskólanám.

Áhrifin eru ekki ein­angruð, þar sem hag­kerfið sýnir teikn um hægari vöxt sam­hliða því að ráðstöfunar­tekjur hafa minnkað og fyrir­tæki dregið úr ráðningum. Inn­heimtu­að­gerðir ríkisins gætu því þrengt að heimilum sem þegar búa við þröngan kost.