Kennitalan.is, markaðstorg fyrir kaup og sölu fyrirtækja, var sett í loftið í sumar. Alls hafa 36 fyrirtæki, hliðarverkefni og eignir verið settar á sölu á markaðstorginu. Heildarvirði verkefna og fyrirtækja í sölu á markaðstorginu er í dag um 700 milljónir króna.

Í vikunni setti Kennitalan.is í loftið nýja undirsíðu sem gerir fólki kleift að finna sér sérfræðiaðstoð við kaup eða sölu fyrirtækja.

PwC er fyrst fyrirtækja á Íslandi til að koma inn sem samstarfsaðili við seljendur og kaupendur fyrirtækja hjá markaðstorginu.

Þar getur fólk í sölu eða kauphug fundið sér sérfræðing sem aðstoðar við hina ýmsu anga sem tengjast sölu fyrirtækja, til að mynda verðmat, skattaleg áreiðanleikakönnun, kaupsamningsgerð og tengda þjónustu.

„Fyrsta skrefið í vegferðinni var að aðstoða fólk sem vill selja og auglýsa sjálft að fá til þess vettvang eins og Kennitalan.is. Nú stígum við næsta skref sem er að geta tengt okkar notendur við sérfræðinga í verðmati, skattalegum áreiðanleikakönnunum, kaupsamningsgerð og fleiri liðum sem eru mikilvægur angi þess að kaupa eða selja fyrirtæki“, segir Tryggvi Páll Jakobsson, þróunarstjóri Kennitalan.is

PwC er eitt stærsta endurskoðunarfyrirtæki á Íslandi og fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli sínu. Með samstarfi við Kennitalan.is er tekið skref í að bjóða sérfræðiþjónustu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í tengslum við kaup og sölu slíkra fyrirtækja.

„Kennitalan.is er spennandi vettvangur til að leiða saman seljendur og kaupendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Með samstarfinu sjáum við tækifæri til að bjóða þessum aðilum aðgang að sérfræðiþjónustu okkar og breikka þannig þjónustuframboð okkar“, segir Örn Valdimarsson sviðsstjóri Fyrirtækjaráðgjafar PwC.