Kaupfélags Skagfirðinga (KS) keypti Kjarnafæði Norðlenska hf. (KN) í september í fyrra. Enn ríkir fullkomin óvissa um það hvort kaupin gangi eftir vegna dómsmáls sem nú er í gangi. Ársreikningur KS fyrir síðasta ár hefur ekki verið gerður opinber en fjallað er um málið í ársskýrslu KS fyrir árið 2024, sem Viðskiptablaðið er með undir höndum.

Í tilkynningu sem send var út í tengslum við kaupin sagði að meginmarkmið viðskiptanna væri að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða og auka þannig skilvirkni og samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu bændum og neytendum til hagsbóta.

Ákvörðunin KS um að kaupa Kjarnafæði Norðlenska var tekin eftir að búvörulögum var breytt fyrir ári síðan. Í breytingunum fólst að framleiðendafélögum var veitt heimild til að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Afdrifaríkur dómur

„Þann 18. nóvember féll dómur í máli Innnes ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu, sem byggður var á þeirri niðurstöðu að breytingin á Búvörulögunum, sem tók gildi þann 5. apríl 2024, hafi ekki lagagildi,“ segir í skýrslu stjórnar KS, sem birt er í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2024.

Forsagan þessa máls er sú að í júlí í fyrra beindi Innnes, sem er ein stærsta heildsala landsins, erindi til Samkeppniseftirlitsins (SKE), þar sem þess var krafist að eftirlitið gripi til íhlutunar gegn samruna og samráðs kjötafurðastöðva. Taldi Innnes að undanþáguheimildirnar, sem samþykktar voru með breytingunum á búvörulögunum, væru andstæðar stjórnarskrá og hefðu því ekki lagagildi.

SKE hafnaði beiðni Innnes á þeim forsendum að það væri ekki á valdsviði stofnunarinnar að leggja mat á stjórnskipulegt gildi laga. Innnes stefndi þá SKE fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og eins og áður sagði féll dómur í málinu þann 18. nóvember. Niðurstaða dómsins var sú að undanþágur búvörulaganna væru andstæðar stjórnarskrá og hefðu því ekki lagagildi.

Þann 2. desember áfrýjað SKE til Hæstaréttar. Í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér af því tilefni sagði: „Að mati Samkeppniseftirlitsins hefur niðurstaða málsins augljóst fordæmisgildi um heimild til þess til að beita samkeppnislögum vegna samruna kjötafurðastöðva og annarrar háttsemi slíkra félaga sem kann að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga.

Þá hefur niðurstaða málsins að mati eftirlitsins almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi laga nr. 30/2024 um breytingu á búvörulögum og þann áskilnað sem felst í 44. gr. stjórnar­skrár­innar um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Jafnframt hefur niðurstaða málsins verulega samfélagslega þýðingu þegar litið er til þeirra áhrifa sem undanþáguheimildir búvörulaga hafa á starfsskilyrði bænda og samkeppni á kjötmarkaði.“

KS fékk bréf daginn eftir

Daginn eftir að dómurinn féll í byrjun nóvember fékk KS bréf frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem segir að stöðva þurfi allar aðgerðir tengdar samruna félaganna. Ef það verði ekki gert gæti það varðað fyrirtæki stjórnvaldssektum og einstaklingum refsingu. Af þessari ástæðu er ekki færð hlutdeild í afkomu Kjarnafæði Norðlenska í samstæðureikningi KS fyrir síðasta rekstrarár.

Í skýringu í ársreikningi KS er fjallað frekar um þetta mál. Þar segir að „með bréfi SKE var KS svipt rekstrarlegu forræði yfir dótturfélagi sínu KN, sem keypt hafði verið á grundvelli gildandi laga í landinu.“ Í skýringunni er einnig greint frá því að KS hafi fengið annað bréf frá SKE þann 4 mars síðastliðinn. Í því er áréttað að stjórnvaldssektir liggi við brotum fyrirtækja á samkeppnislögum og ákvörðunum eftirlitsins. Þá geti háttsemi stjórnenda og starfsmanna varðað refsingu.

Máflutningur var máli Innnes og SKE í Hæstarétti í síðustu viku og er dómsniðurstöðu því að vænta á næstu dögum eða vikum. Íslenska ríkið gekk inn í málið og fól ríkislögmanni að gæta hagsmuna þess fyrir Hæstarétti. Fyrir mánuði síðan féll dómur í Hæstarétti, sem heimilaði KS og Búsæld, félags bænda sem á stóran hlut í KN, einnig að ganga inn í málið en Neytendasamtökunum var synjað um meðalgöngu.

„Verði endanleg niðurstaða dómstóla að lögin hafi ekki lagagildi, kann að myndast skaðabótaskylda á hendur löggjafanum vegna málsins,“ segir í skýrslu stjórnar KS.

Fjöldi dótturfélaga

Í ársskýrslu KS er fjallað um félög í eigu samstæðunnar. Áskrifendur lesið nánar um það og skoðað lista sem birtist í Viðskiptablaðinu með því að smella í hlekkinn hér fyrir neðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.