Lögmannsstofan BBA Fjeldco hélt áfram að vaxa á síðasta ári en rekstrartekjur stofunnar jukust um 8,3% frá fyrra og námu 1,5 milljörðum króna. Félagið hyggst greiða út allan hagnað síðasta árs sem nam 400 milljónum króna.

Lögmannsstofan BBA Fjeldco hélt áfram að vaxa á síðasta ári en rekstrartekjur stofunnar jukust um 8,3% frá fyrra og námu 1,5 milljörðum króna. Félagið hyggst greiða út allan hagnað síðasta árs sem nam 400 milljónum króna.

„Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður víða um heim, þ.m.t. vaxandi verðbólgu og vaxtahækkanir, sem hafa haft óumflýjanleg áhrif á ákveðin verkefni á sviði fjármuna- og fyrirtækjalögfræði, hefur verkefnaflóra félagsins haldið áfram að vaxa með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á markaðshlutdeild félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi stofunnar.

Lögmannsstofan var stofnað haustið 2019 með samruna BBA og Fjeldco, tveggja lögmannsstofa með sérhæfingu á sviði fyrirtækjalögfræði.

Stjórn félagsins segir það áfram vinna að því að byggja fleiri stoðir undir reksturinn auk þess sem félagið hefur nú starfsemi á þremur mismunandi landfræðilegum mörkuðum – Íslandi, Englandi og Frakklandi. „Þessar stefnumarkandi ákvarðanir hafa haft jákvæð áhrif á rekstur þess.“

„Með vísan til framangreinds hyggst félagið byggja áfram undir rekstur sinn og styrkja þannig enn fremur stöðu sína á íslenskum markaði. Félagið hyggur einnig á frekari sókn á erlendum mörkuðum.“

Laun og launatengd gjöld námu 660 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 626 milljónir árið áður. Ársverk voru 36 í fyrra en 33 árið 2022.

Hluthafar lögmannsstofunnar voru tuttugu í árslok 2023 en fjórtán í ársbyrjun. Sjö stærstu hluthafar BBA Fjeldco með 11,2% hlut hver eru:

  • Bjarki H. Diego
  • Einar Baldvin Árnason
  • Gunnar Þór Þórarinsson
  • Halldór Karl Halldórsson
  • Kári Ólafsson
  • Páll Jóhannesson
  • Þórir Júlíusson