Gervigreindarkapphlaupið er hafið. Nú þegar eru áform uppi um byggingu gervigreindargagnavers AI Green Cloud í Ölfusi og þá hefur Advania í samstarfi við Dell og NVIDIA komið háþróuðum gervigreindarnetþjónum fyrir í gagnaver hérlendis. Ísland er í þeirri einstöku stöðu að búa yfir mikilli óbeislaðri orku og vaknar þá spurningin hvort leggja eigi áherslu á að nýta hana að hluta í byggingu gervigreindargagnavera.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að í þessu liggi gríðarleg tækifæri.

„Ekki bara vegna þess að þarna verða til útflutningstekjur, verðmæti ný störf heldur getur þetta líka snúið að viðnámsþróttinum og öryggismálum. Það skiptir máli hvar gögn eru unnin og að þau séu aðgengileg. Þetta snýr líka að þróun samfélagsins og menntun.

Norðurlöndin hafa keppst við að sækja tækifærin á þessu sviði. Alþjóðleg stórfyrirtæki, Microsoft og Google sem dæmi, hafa farið í miklar fjárfestingar á Norðurlöndunum á síðustu árum. Samhliða því eru sömu fyrirtæki í samstarfi við menntastofnanir eins og háskóla varðandi tæknimenntun. Þetta gerist vegna þess að stjórnvöld þessara ríkja eru virk í að sækja tækifærin og þetta gerist ekki öðruvísi. Í þessu á hin klassíska frjálslyndisstefna, laissez-faire, ekki við. Við teljum að það muni skilja á milli þeirra ríkja sem sækja tækifærin á þessu sviði og hinna sem gera það ekki.“

Þróun í gervigreind hefur tekið stökk á síðustu árum og raunar mætti segja á síðustu misserum. Á sama tíma hafa engar stórar virkjanir verið byggðar á Íslandi. AI Green Cloud hyggst sem dæmi kaupa rafmagn fyrir gervigreindargagnaverið í Ölfusi á smásölumarkaði. Sigurður segir Íslendinga hafa sofið á verðinum í virkjanamálum. Hefði Hvammsvirkjun sem dæmi verið komin í gagnið væri landið í dauðfæri til taka þátt í kapphlaupinu um uppbyggingu gervigreindargagnavera.

„Orkumálin hafa verið takmarkandi þáttur og frestað uppbyggingu hér á landi. Þetta bitnar á okkar lífskjörum.“

Nánar er rætt við Sigurð í sérblaðinu Iðnþing 2025. Áskrifendur geta lesið í viðtalið í heild hér.