Microsoft á í viðræðum um að fjárfesta fyrir 10 milljarða dala, eða sem nemur 1.440 milljörðum króna, í OpenAI, sem þróar gervigreindartæknina ChatGPT samkvæmt heimildarmönnum Semafor. OpenAI er metið á 29 milljarða dala í hinni fyrirhuguðu fjármögnunarlotu.

Gervigreindarfyrirtækið var stofnað árið 2015, m.a. af Elon Musk. Fyrirtækið hefur þróað spjallmenni sem hefur notið mikilla vinsælda meðal almennings á síðustu vikum.

Í frétt Semanor segir að ChatGPT sé að blæða peningum þar sem það kosti félagið vinnslugetu í hvert sinn sem notandi hefur samband við spjallmennið. Fjárfestingin feli þó í sér litla áhættu fyrir Microsoft þar sem OpenAI styður sig við skýjaþjónusta Microsoft.

Gangi samningurinn í gegn mun Microsoft taka til sín 75% af hagnaði OpenAI þar til netrisinn hefur endurheimt fjárfestingu sína. Að því loknu mun Microsoft fara með 49% hlut í OpenAI, aðrir fjárfestar munu eiga 49% og óhagnaðardrifið móðurfélag gervigreindarfélagsins mun eiga 2% samkvæmt heimildarmönnum.