Bandaríska tölvufyrirtækið IBM hefur ákveðið að hætta að auglýsa sig á samfélagsmiðlinum X, sem áður hét Twitter, eftir að skýrsla sýndi fram á að auglýsingar fyrirtækisins enduðu við hlið færslna sem lofuðu Adolf Hitler og nasisma. BBC greinir frá.

Fyrirtækið segir það algjörlega óviðunandi að efni þess birtist í slíkum þráðum á samfélagsmiðlinum en X þvertekur fyrir að auglýsingar séu viljandi settar á ákveðna staði.

„IBM hefur ekkert umburðarlyndi fyrir hatursorðræðu og mismunun og við höfum nú þegar stöðvað allar auglýsingarherferðir á X á meðan við rannsökum þetta óviðunandi ástand,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Ákvörðun IBM kemur einnig í kjölfar gagnrýni á hendur Elon Musk um að hann hafi kallað samsæriskenningu um gyðinga „raunverulegan sannleik“ í samtali við annan notanda. Auglýsingar IBM hafa þá fundist við hlið færslna sem tengdust Hitler og afneitun á helförinni.

Samkvæmt aðgerðarhópnum Media Matters for America fundust auglýsingar frá Apple, Oracle, Bravo og Xfinity einnig við hlið slíkra færslna. X hefur ítrekað að auglýsingar séu ekki vísvitandi settar við hlið öfgakennds efnis þar sem fyrirtækið græðir ekkert á reikningum sem ýti undir nasisma.

Samfélagsmiðillinn segist hafa meira eftirlit en margir aðrir miðlar og heldur því fram að hatursorðræða hafi minnkað á miðlinum þrátt fyrir mikinn niðurskurð meðal öryggisteymis fyrirtækisins. Utanaðkomandi hópar eins og ADL (e. Anti-Defamation League) eru hins vegar ósammála þessari greiningu.