Hagstofan birti í morgun niðurstöður úr fyrsta opinbera manntali hér á landi í áratug. Mannfjöldi hér á landi, samkvæmt niðurstöðum Hagstofunnar, er lægri um tæplega 10 þúsund manns heldur en í bókum Þjóðskrár.

Mannfjöldi á Íslandi var 359.122 á manntalsdegi 1. janúar 2021, sem er 13,8% fjölgun frá því að manntal var tekið síðast árið 2011 þegar hann var 315.556. Í Þjóðskrá eru skráðir 368.791 manns og voru því 11.343 ekki til mannfjölda í manntali og 1.674 var bætt við.

„Mestu munar um þá sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga,“ segir Hagstofan. Niðurstaða tölfræðilíkans Hagstofunnar er að 7.701 einstaklingur búi erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili í þjóðskrá.

Lögheimili leiðrétt hjá 2,8% þjóðarinnar

Þá voru heimilisföng leiðrétt miðað við Þjóðskrá ef vísbendingar úr öðrum stjórnsýsluskrám gáfu tilefni til þess. Alls voru lögheimili leiðrétt fyrir 10.163 einstaklinga eða sem nemur 2,8% af heildarmannfjölda. Rúmur helmingur þeirra var færður til innan sveitarfélags en tæpur helmingur á milli sveitarfélaga.

Mannfjöldi jókst í öllum landshlutum en mest var fjölgunin á Suðurnesjum eða um 28%. Næst kom Suðurland þar sem fjölgunin var 19% og þar á eftir var höfuðborgarsvæðið með 15% fjölgun. Minnst var fjölgunin á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum.

Hagfræðingurinn Konráð Guðjónsson sagði á Twitter í morgun að misræmi í opinberum gögnum um mannfjölda og talningu Hagstofunnar setji umræðu um uppsafna íbúðaþörf í nýtt samhengi.