Íbúðamarkaðurinn hefur hægt og rólega verið að kólna síðan í sumar. Í ágúst lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,4% og í vikunni birtust tölur fyrir nóvembermánuð, sem sýna að þá lækkaði vísitalan um 0,3%. Fyrir utan þessi tvö skipti þarf að fara allt aftur til nóvember árið 2019 til að finna lækkun innan mánaðar en þá lækkaði vísitalan um 0,3%.

Töluverður munur er á markaði með sérbýli og fjölbýli. Þannig nam lækkun á sérbýli í nóvember 1,2% á meðan vísitala íbúðaverðs í fjölbýli lækkaði einungis um 0,04%. Myndin var mjög svipuð í ágúst en þá lækkaði sérbýli um 2,5% meðan fjölbýli hækkaði um 0,1%. Nettólækkunin þennan mánuð var 0,4% eins og áður sagði.

Markaðurinn á flug

Á árinu árinu 2019 hækkaði vísitala íbúðaverðs um 2,7%. Árið 2020 byrjaði markaðurinn að taka við sér en á því ári hækkaði vísitalan um 8%. Í byrjun árs 2021 voru blikur á lofti um að markaðurinn myndi fara á enn meira flug.

Í Viðskiptablaðinu í mars 2021 var greint frá því að ef fram héldi sem horfði kynni markaðurinn að ofhitna. Ástæðurnar voru í meginatriðum tvíþættar. Í fyrsta lagi var eftirspurn umfram framboð vegna þess hversu lítið var verið að byggja á höfuðborgarsvæðinu og þá sér í lagi í Reykjavík. Í öðru lagi hafði aðgengi að ódýru lánsfjarmagni aukist samfara miklum vaxtalækkunum. Úr varð að markaðurinn fór á fleygiferð og þegar árið 2021 var á enda hafði vísitalan hækkað um ríflega 20%.

Hámarkinu náð

Hækkanir á íbúðamarkaði héldu síðan áfram á þessu ári og var hámarkinu náð síðasta sumar. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar var yfir 25% bæði í júní og júlí en síðan þá hefur smám saman hægt á og í nóvember nam tólf mánaða hækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 20,3%.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði