Verð íbúðarhúsnæðis hefur hækkað 33% umfram verð atvinnuhúsnæðis á undanförnum 5 árum. Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri fasteignafélagsins Heima, vakti athygli á þessu á fjárfestafundi í dag.
Á meðfylgjandi myndum, sem teknar eru úr fjárfestakynningu Heima vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs, má sjá hvernig verðþróun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hefur verið ólík á undanförnum árum.
Á myndinni vinstra megin má sjá verðþróun íbúðarhúsnæðis á dökkbláa ferlinum og atvinnuhúsnæði á blágræna ferlinum.
„Þá sjáið þið að þessir ferlar héldust tiltölulega vel að frá árinu 2010 til ársins 2019. En síðan hefur bilið þarna á milli verið að greikka,“ sagði Halldór Benjamín.
Myndin hægra megin sýnir hvernig hversu mikill mismunurinn hefur verið á milli þessara tveggja flokka húsnæðis á síðustu árum.
„Verðþróun íbúðarhúsnæðis hefur verið miklu hraðari en verðþróun atvinnuhúsnæðis. Svo getur bara hver og einn haft skoðun á því hvernig, hvort eða með hvaða hætti þetta misræmi muni leiðrétta sig til lengri tíma.“
„Aukin arðsemi er frumforsenda við ákvarðanir um fjárfestingar“
Heimar högnuðust um 1,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við eins milljarðs króna tap á sama tímabili í fyrra. Félagið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar.
Rekstrartekjur Heima á þriðja fjórðungi námu 3,7 milljörðum króna, sem samsvarar 6,8% aukningu milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu (EBITDA) jókst um 4,1% milli ára og nam 2.568 milljónum króna á fjórðungnum.
Rekstrartekjur Heima á fyrstu níu mánuðum ársins námu 10,9 milljörðum króna. Leigutekjur Heima á þessu níu mánaða tímabili hækkuðu um 7,8% frá sama tímabili í fyrra sem er tæplega 1,1% meiri aukning en hækkun verðlags á sama tíma. Félagið segir að þessi tekjuvöxtur hafi skilað sér í samsvarandi EBITDA-vexti upp á 7,5% milli ára.
„Heimar hafa fjárfest verulega í uppfærslum á eignasafni sínu á undanförnum árum samhliða kaupum á nýjum eignum og er þess nú farið að sjá stað í uppgjörum félagsins. Þessar fjárfestingar eru grundvöllur 7,8% vaxtar leigutekna á fyrstu níu mánuðum ársins,“ segir Halldór Benjamín í uppgjörstilkynningu Heima.
Félagið hefur einnig skoðað tækifæri til sölu tiltekinna eigna og hafi heildarfermetrum eignasafnsins fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022 með stefnumiðaðri eignasölu. Það sem af er ári hafi Heimar selt eignir fyrir 3,3 milljarða þar sem verðið var að meðaltali ríflega 10% yfir bókfærðu virði.
„Stjórnendur munu áfram nýta tækifæri til eignasölu sé hún skynsamleg út frá hagsmunum hluthafa. Virði hlutafjár Heima er enn lægra en bókfært eigið fé félagsins og vinna stjórnendur markvisst að því að auka arðsemi félagsins. Aukin arðsemi er frumforsenda við ákvarðanir um fjárfestingar og horft er til þess að bætt samkeppnishæfni með uppbyggingu á skilgreindum kjarnasvæðum, sem og tilkoma nýrra tekjustrauma, muni hafa jákvæð áhrif á verðþróun félagsins á markaði.“