Ný vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% annan mánuðinn í röð, samkvæmt nýbirtum tölum HMS. Árshækkun vísitölunnar mældist 9,1%, samanborið við 8,4% í maí, og hefur ekki verið meiri síðan í febrúar 2023. Hækkunin í júní var mest á meðal fjölbýlishúsa á landsbyggðinni.

Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 3,1% í júní, en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 2% að raunvirði í maí og 0,3% að raunvirði í apríl.

HMS gefur út fjórar undirvísitölur yfir verð á fjölbýli og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar.

Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,3% milli mánaða og nemur ársbreyting þessarar undirvísitölu 8,2%‏.‏ Í júní hækkaði sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,3% milli mánaða og hefur nú hækkað um 12,1% á síðustu tólf mánuðum.

Undirvísitala yfir fjölbýli á landsbyggðinni hækkaði um 2,3% milli mánaða og hefur hækkað um 11,3% á síðustu tólf mánuðum. Sérbýli á landsbyggðinni hækkaði um 1,3% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 5,7% á ársgrundvelli.

HMS kynnti nýja vísitölu íbúðaverðs í mars sem inniheldur íbúðaverð á landsbyggðinni ólíkt fyrri vísitölu. Nýja vísitalan er gæðaleiðrétt, sem felur í sér að breytingar á milli mánaða í „gæðum“ seldra eigna ætti ekki að hafa áhrif á þróun vísitölunnar.