Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,09% í febrúar, samanborið við 1,5% hækkun í janúar. Árshækkun vísitölunnar mælist nú 8,4%, en hún mælist 10,4% í janúar.
Í frétt á vef HMS er bent á að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 4,2% á síðastliðnum tólf mánuðum. Íbúðaverð hafi því hækkað um 4,06% að raunvirði á ársgrundvelli í febrúar, samanborið við 5,5% raunverðshækkun í janúar.
„Mánaðarbreyting íbúðaverðs í febrúar er mun minni en hún hefur verið síðastliðna 12 mánuði, en á því tímabili hefur mánaðarbreyting íbúðaverðs verið að meðaltali 0,7 prósent.“
Lækkunin drifin áfram af höfuðborgarsvæðinu
HMS gefur út fjórar undirvísitölur yfir verð á fjölbýli og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar.
Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,6% milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,1% á síðustu tólf mánuðum. Í febrúar lækkaði sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 2,2% milli mánaða og hefur nú hækkað um 8,0% á síðustu tólf mánuðum.
Undirvísitala yfir fjölbýli á landsbyggðinni lækkaði um 1,1% milli mánaða og hefur hækkað um 6,9% á síðustu tólf mánuðum. Sérbýli á landsbyggðinni hækkaði um 1,4% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 12,4% á síðasta tólf mánaða tímabili.