Húsnæðisverð í Svíþjóð lækkaði að meðaltali um 2,4% í desember, samkvæmt nýrri skýrslu sænska ríkisbankans SBAB. Íbúðaverð hefur nú lækkað um tæplega 17% frá því að það var í hæstu hæðum síðastliðið vor.

Íbúðaverð í Svíþjóð hefur ekki lækkað meira frá því á tíunda áratugnum. Í umfjöllun Bloomberg segir að spár flestra hagfræðinga og Seðlabanka Svíþjóðar um 20% lækkun húsnæðisverðs líti nú út fyrir að vera of varfærnar.

Um 64% af Svíum búa í eigin húsnæði en flestir eru ekki með fastvaxtalán. Hækkun stýrivaxta Seðlabanka Svíþjóðar, úr 0,0% í 2,5% frá apríl til nóvember á síðasta ári, hafði því áhrif fyrr en ella á greiðslubyrði húsnæðiseigenda.

Íbúðaverð í Svíþjóð féll um 2,4% í desember, 2,2% í nóvember og 2,3% í október, samkvæmt vísitölu SBAB sem byggir á færslugögnum frá fasteignavefsíðunni Booli á vegum SBAB. Sænski bankinn segir að sölutími íbúða hafi sömuleiðis lengst.