Húsnæðisverð í Svíþjóð hefur lækkað frá sumarlokum og er nú um 15% lægra en þegar það náði hæstu hæðum fyrir einu og hálfu ári síðan.

Íbúðaverð í Svíþjóð lækkaði um 1,4% á milli október og nóvember samkvæmt vísitölu SBAB. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar. Húsnæðisverð í Svíþjóð var nokkuð stöðugt á fyrri hluta ársins eftir að hafa lækkað um meira en 11% á árinu 2022.

Í umfjöllun Bloomberg segir að nýju tölurnar gefi til kynna að sænski húsnæðismarkaðurinn horfi mögulega fram á annan fasa af lækkunarferlinu sem hófst í fyrra.

„Frá hæsta punktinum um vorið 2022 hefur verðið nú fallið um tæplega 15%,“ er haft eftir aðalhagfræðingi SBAB. „Við erum klárlega að nálgast heildarlækkun upp á 20% sem höfum spáð í talsverðan tíma.“

Greiningaraðilar eru þó ekki á einu máli um þróun húsnæðisverðs. Greinendur Danske Bank sögðu í síðustu viku að þeir ættu von á að íbúðaverð haldist óbreytt eða hækki lítillega á næstunni fremur en að lækka frekar.

Seðlabankinn í Svíþjóð hefur hækkað stýrivexti í landinu úr 0% í 4,0% á innan við tveimur árum. Flestir íbúðareigendur í Svíþjóð eru með fasta vexti til þriggja mánaða. Á síðasta eina og hálfa árinu hafa meðalvextir á útistandandi húsnæðislánum hækkað úr 1,5% í 3,8%.

Í frétt Bloomberg er bent á að verg landsframleiðsla í Svíþjóð dróst saman um 0,3% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Um er að ræða annan fjórðunginn í röð sem landsframleiðsla dregst saman.

Selva Bahar Baziki, hagfræðingur Bloomberg, spáir því að sænska hagkerfið dragist saman um 0,7% árið 2023 og gerir ráð fyrir að hagvöxtur taki ekki við sér fyrr en árið 2025.