Frá árinu 2015 hefur íbúðaverð hækkað meira og sveiflast minna en íslensk hlutabréf, samkvæmt nýrri greiningu HMS.
Niðurstöðurnar benda til óvenjulegrar stöðu á innlendum eignamarkaði að mati HMS „þar sem almennt mætti búast við meiri ávöxtun á áhættusamari fjárfestingarkostum.“
Samkvæmt greiningu HMS hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 166% frá ársbyrjun 2015, á meðan úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar – sem mælir þróun innlendra hlutabréfa – hefur hækkað um 100% á sama tímabili.
Enn fremur hefur verðþróun íbúða reynst mun stöðugri en þróun hlutabréfa. Þegar skoðað er staðalfrávik í 12 mánaða ávöxtun kemur í ljós að flökt í hlutabréfaverði mælist um 20% en einungis 7% í tilfelli íbúðaverðs – eða næstum þrefalt meiri sveiflur á hlutabréfamarkaði.
HMS telur þessar niðurstöður varpa ljósi á óeðlilega stöðu á eignamarkaði, þar sem vænta mætti hærri ávöxtunar úr hlutabréfum sem bera almennt meiri áhættu.

Misræmi í framboði og eftirspurn á markaði með nýjar íbúðir
Í mánaðarskýrslu HMS kemur einnig fram að þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaði hefur sölutími nýrra íbúða lengst.
Flestar nýjar íbúðir eru nú 80–140 fermetrar að stærð, en einungis 15% þeirra eru undir 80 fermetrum – þó að 32% seldra fjölbýlisíbúða síðustu ár séu á því stærðarbili. HMS telur að framboð smærri íbúða þurfi að rúmlega tvöfaldast til að mæta eftirspurn.
Þrátt fyrir fjölgun kaupsamninga milli mánaða í ársbyrjun drógust hrein ný íbúðalán frá bönkum saman um 13% milli janúar og febrúar.
Samhliða hefur hlutur lífeyrissjóða í fjármögnun aukist verulega. Hrein ný verðtryggð lán frá lífeyrissjóðum námu 9,5 milljörðum króna í febrúar, samanborið við 7,3 milljarða frá bönkum.
Hrein ný lántaka var því lítil sem engin hjá bönkum eftir að tekið er tillit til uppgreiðslna á óverðtryggðum lánum, á meðan lífeyrissjóðir styrktu stöðu sína enn frekar.
Vaxtakjör lífeyrissjóða reynast nú hagstæðari en hjá bönkum þegar kemur að verðtryggðum lánum.
Breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum eru 3–6% hjá lífeyrissjóðum en 4–7% hjá bönkum. Óverðtryggðir breytilegir vextir eru hins vegar hærri, um 8%, hvort sem horft er til lífeyrissjóða eða banka.