Frá árinu 2015 hefur íbúða­verð hækkað meira og sveiflast minna en ís­lensk hluta­bréf, sam­kvæmt nýrri greiningu HMS.

Niður­stöðurnar benda til óvenju­legrar stöðu á inn­lendum eigna­markaði að mati HMS „þar sem al­mennt mætti búast við meiri ávöxtun á áhættu­samari fjár­festingar­kostum.“

Sam­kvæmt greiningu HMS hefur vísi­tala íbúða­verðs hækkað um 166% frá árs­byrjun 2015, á meðan úr­vals­vísi­tala ís­lensku kaup­hallarinnar – sem mælir þróun inn­lendra hluta­bréfa – hefur hækkað um 100% á sama tíma­bili​.

Enn fremur hefur verðþróun íbúða reynst mun stöðugri en þróun hluta­bréfa. Þegar skoðað er staðal­frávik í 12 mánaða ávöxtun kemur í ljós að flökt í hluta­bréfa­verði mælist um 20% en einungis 7% í til­felli íbúða­verðs – eða næstum þre­falt meiri sveiflur á hluta­bréfa­markaði​.

HMS telur þessar niður­stöður varpa ljósi á óeðli­lega stöðu á eigna­markaði, þar sem vænta mætti hærri ávöxtunar úr hluta­bréfum sem bera al­mennt meiri áhættu.

Mis­ræmi í fram­boði og eftir­spurn á markaði með nýjar íbúðir

Í mánaðar­skýrslu HMS kemur einnig fram að þrátt fyrir aukin um­svif á fast­eigna­markaði hefur sölutími nýrra íbúða lengst.

Flestar nýjar íbúðir eru nú 80–140 fer­metrar að stærð, en einungis 15% þeirra eru undir 80 fer­metrum – þó að 32% seldra fjöl­býlisíbúða síðustu ár séu á því stærðar­bili​. HMS telur að fram­boð smærri íbúða þurfi að rúm­lega tvöfaldast til að mæta eftir­spurn.

Þrátt fyrir fjölgun kaup­samninga milli mánaða í árs­byrjun drógust hrein ný íbúðalán frá bönkum saman um 13% milli janúar og febrúar.

Sam­hliða hefur hlutur líf­eyris­sjóða í fjár­mögnun aukist veru­lega. Hrein ný verð­tryggð lán frá líf­eyris­sjóðum námu 9,5 milljörðum króna í febrúar, saman­borið við 7,3 milljarða frá bönkum​.

Hrein ný lán­taka var því lítil sem engin hjá bönkum eftir að tekið er til­lit til upp­greiðslna á óverð­tryggðum lánum, á meðan líf­eyris­sjóðir styrktu stöðu sína enn frekar.

Vaxta­kjör líf­eyris­sjóða reynast nú hagstæðari en hjá bönkum þegar kemur að verð­tryggðum lánum.

Breyti­legir vextir á verð­tryggðum íbúðalánum eru 3–6% hjá líf­eyris­sjóðum en 4–7% hjá bönkum. Óverð­tryggðir breyti­legir vextir eru hins vegar hærri, um 8%, hvort sem horft er til líf­eyris­sjóða eða banka​.