Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9% í október, samanborið við 1,4% hækkun í september. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 3,1% og síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 1,8%, að því er kemur fram í tilkynningu HMS.

Vísitalan, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, hækkaði um 2,9% á síðustu tólf mánuðum en til samanburðar mældist ársbreytingin 2,6% í september.

Sérbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 2,5% á milli mánaða. Ársbreyting á sérbýlishlutanum mældist jákvæð um 2,7% í október en til samanburðar var hún neikvæð um 0,5% í september.

Verð á fjölbýli hækkaði um 0,5% í október samanborið við 1,4% hækkun í september. Árshækkun fjölbýlishlutans mælist nú 3,1% samanborið við 3,6% í september.