Ný vísitala íbúðaverðs mældist 104,9 stig í maí og hækkaði um 1,4 prósent á milli mánaða sem er talsvert meiri hækkun, samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Í aprílmánuði hækkaði vísitalan um 0,8 prósent milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 8,4 prósent, sem er rúmum tveimur prósentustigum yfir verðbólgu sem hefur mælst 6,2 prósent.
Samkvæmt HMS má rekja mánaðarhækkun vísitölunnar nánast alfarið til verðhækkunar á íbúðum í sérbýli sem nam um það bil 2,5 prósentum, samanborið við 0,2 prósenta hækkun og 0,3 prósenta lækkun á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 2,2 prósentum í maí en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 0,4 prósent að raunvirði á ársgrundvelli í apríl.
HMS bendir á að raunhækkun íbúðaverðs er drifin áfram af verðhækkunum á landinu öllu, en íbúðaverð hækkaði umfram verðbólgu bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
„Árshækkun íbúðaverðs var mest á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en slíkar íbúðir hækkuðu um 10,2 prósent á ársgrundvelli eða um 4 prósent umfram verðbólgu á tímabilinu. Verð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði minna á milli ára, eða um 7,5 prósent.“
Samkvæmt HMS hækkaði íbúðaverð minna á landsbyggðinni á milli ára samanborið við höfuðborgarsvæðið.
Á landsbyggðinni nam hækkun íbúðaverðs 7,2 prósentum, eða einu prósenti umfram verðbólgu. Verð á íbúðum í sérbýli og fjölbýli á landsbyggð hefur hækkað álíka mikið.