Allt útlit er fyrir að íbúðamarkaður sé að komast í jafnvægi. Það er svo sem ekki furða þar sem Seðlabankinn hefur róið öllum árum að því að tempra hann. Á einu og hálfu ári hafa stýrivextir bankans hækkað úr 0,75% í 6%. Þessu til viðbótar greip bankinn til aðgerða haustið 2021 þegar settar voru nýja reglur um hámarks greiðslubyrði fasteignalána og eiginfjárkvaðir auknar. Síðasta sumar var svo enn hert á þessum reglum.
Auk þessa hefur framboð aukist. Greining Íslandsbanka greinir frá því að byrjun desember hafi 1.800 íbúðir verið til sölu, sem sé aukning um 157% frá því í desember árið 2021.
Úr einum mánuði í þrjá og hálfan
Einn mælikvarði á þróun íbúðamarkaðar og framboð eigna er meðalsölutími birgða sem Seðlabankinn birtir reglulega. Er þá reiknaður út sá tími (fjöldi mánaða), sem það tekur að selja auglýstar eignir á höfuðborgarsvæðinu miðað við veltu viðkomandi mánaðar.
Á síðustu tíu árum er meðaltalið ríflega 3 mánuðir. Frá því í janúar 2021 hefur meðalsölutíminn verið um eða undir 1 mánuði. Lægst hefur gildið farið í 0,8 en það var í janúar síðastliðnum. Í júní var var það 1,05, í júlí 1,52 og í ágúst var það komið í 1,83.
Nýjar tölur fyrir síðustu mánuði birtust í Hagvísum Seðlabankans sem komu út í fyrradag. Þar sést að í september var sölutíminn kominn í 2,55 mánuði, í október í 3,14 og í nóvember var meðalsölutíminn 3,52 mánuðir. Þetta gildi hefur ekki verið svona hátt síðan í byrjun árs 2015.
Fjallað var um íbúðamarkaðinn í Viðskiptablaðinu, sem kom út 22. desember 2022.