Framboð íbúða til sölu hóf að aukast í byrjun febrúar „en hefur aukist sérstaklega hratt frá því um þar síðustu stýrivaxtahækkun í byrjun maí“ segir í nýrri skýrslu HMS. Framboðið sé bæði komið til vegna minnkandi sölu og fjölgun íbúða sem bætast á sölu. „Mögulega er aukið framboð til marks um að farið sé að draga úr eftirspurnarþrýstingi.“
Þann 4. júlí síðastliðinn voru 733 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 503 þann 1. maí. Framboðið hefur því aukist um 46% á rúmum tveimur mánuðum og 67% frá því í byrjun febrúar en þykir þó enn lítið miðað við hvað gengur og gerist. Fjöldi nýrra íbúða til sölu hefur þó staðið nokkurn veginn í stað og því er aukningin einkum á meðal annarra íbúða.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur íbúðum til sölu einnig fjölgað en annars staðar á landinu dregur áfram úr framboði.
Hlutfall íbúða á yfirverði fer minnkandi
Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu í maí frá fyrri mánuði miðað við árstíðaleiðréttar tölur úr 436 í 503. Þar á undan hafa viðskipti á íbúðamarkaði hins vegar ekki verið jafn fá síðan í upphafi Covid-faraldursins. Sömu sögu er að segja af nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðinni.
Hlutfall íbúða sem seldist yfir ásettu verði dróst saman í maí. Á landinu öllu seldust um 52,8% íbúða yfir ásettu verði í maí samanborið við 54,4% í apríl. Þar af seldust 59,5% íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði en í apríl voru þær 69,2%.
„Þess má geta að síðustu vikuna í maí minnkaði hlutfall íbúða á yfirverði þónokkuð á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess en sú vika var ekki heil og mögulega verða þær tölur eitthvað uppfærðar. Því er ekki hægt að fullyrða strax að um raunverulegan viðsnúning sé að ræða.“
Á landsbyggðinni var slegið met í hlutfalli íbúða sem seldust yfir ásettu verði en hlutfallið var 48,7% fyrir íbúðir í fjölbýli og 31,9% fyrir sérbýlin.
Sölutími að lengjast
Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu var 46,1 dagur í maí miðað við 35 daga í apríl. Hagfræðideild HMS segir að nokkrar sveiflur geti verið á milli mánaða en meðalsölutíminn hefur ekki lengst svo mikið á milli mánaða síðan í byrjun árs 2018.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landsbyggðinni lengdist meðalsölutíminn aðeins lítilega. Fyrir vikið var maímánuður eitt af fáum skiptum þar sem meðalsölutíminn í nágrannasveitarfélögunum var styttri en á höfuðborgarsvæðinu.