ÍBV er það lið sem lék í Bestu deild karla í fyrra sem hefur verið rekið með mestu tapi undanfarin tvö ár en alls nemur tap af rekstri knattspyrnudeildar félagsins 67 milljónum króna. KR, sigursælasta lið landsins, kemur næst á eftir með 55 milljóna tap. Eigið fé Vesturbæjarstórveldisins var neikvætt um 62 milljónir í lok síðasta árs. Ásamt KR er ÍBV, með 40 milljóna neikvætt eigið fé, eina félagið sem var með neikvætt eigið fé um síðustu áramót.
Undanfarin tvö tímabil hefur KR mistekist að komast í Evrópukeppni og hefur það haft umtalsverð áhrif á fjárhaginn. Aftur á móti virðist horfa til betri vegar í Vesturbænum því umtalað er að fjársterkir stuðningsmenn hafi lagt Knattspyrnudeild KR til töluverða fjármuni. Leikmannakaup vetrarins renna stoðum undir þá kenningu en þrír eftirsóttir leikmenn hafa gengið í raðir liðsins frá erlendum atvinnumannaliðum.
Fjárhagsstaða FH hefur einnig verið umtöluð undanfarin ár en félagið hefur tapað alls 30 milljónum á síðustu tveimur árum. Rétt eins og hjá KR hefur það sett strik í reikninginn að ná ekki sæti í Evrópukeppni en FH tryggði sér síðast Evrópusæti sumarið 2020.
Þrjú lið með yfirdrátt
Þegar horft er til skuldastöðu liðanna má sjá að þrjú þeirra, Fylkir, KR og FH, eru með yfirdrætti en eins og alkunna er eru slík lán óhagstæð sökum hárra vaxta. Um síðustu áramót skuldaði FH 39 milljónir í yfirdráttarlán, KR 17 milljónir og Fylkir 10 milljónir. Auk 39 milljóna yfirdráttarins hvílir 42 milljóna langtímaskuld við lánastofnanir á Knattspyrnudeild FH.
Skuldastaða félaganna er almennt séð ágæt og meginþorri skulda þeirra í formi viðskiptaskulda. Nokkur félög skulda tengdum aðilum, þá í flestum tilfellum aðalstjórn félagsins, en slík lán bera alla jafna enga vexti.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.