Laxeldisfyrirtækið Ice Fish Farm, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða, tilkynnti á markaðsdegi á Eskifirði í morgun um að félagið hefði tekið upp nafnið Kaldvík.

Félagið tilkynnti fyrir tveimur vikum um áformaða skráningu á íslenska First North-markaðinn en gert er ráð fyrir að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf í Kauphöllinni verði á morgun. Hlutabréf Kaldvíkur verða þá tvískráð á Íslandi og í Noregi en félagið er þegar skráð á á Eurnonext Growth Oslo markaðinn.

Austurfréttir hafa eftir Jens Garðari Helgasyni, aðstoðarforstjóra Kaldvíkur, á markaðsdeginum að ólík menning hafi verið innan Ice Fish Farm og Laxa fiskeldi sem sameinuðust undir nafni fyrrnefnda félagsins árið 2022. Fyrir rúmu ári síðan hafi verið hafin vinna við að móta sameiginlega stefnu með þátttöku alls starfsfólks.

Hið sameinaða félag, sem heitir nú Kaldvík, er eina félagið með fiskeldi á Austfjörðum. Það er með rekstur á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Berufirði auk þess að eiga leyfi í Stöðvarfirði og með umsóknir um eldi á Seyðisfirði og Mjóafirði. Þá rekur það seiðaeldisstöðvar í Þorlákshöfn og við Kópasker auk laxasláturhúss á Djúpavogi.

Félagið er með leyfi til þess að ala rúmlega 43.800 tonn af laxi auk þess sem 10.000 tonna leyfi bíður staðfestingar. Félagið stefnir á að slátra um 21.500 tonnum á árinu 2024.

Nýtt nafn og vörumerki fyrirtækisins var kynnt á markaðsdegi á Eskifirði í morgun.