Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,8% í hálfs milljarðs króna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 564 krónum á hlut.
Iceland Seafood International var hástökkvari dagsins í Kauphöllinni en hlutabréf félagsins hækkuðu um 8,8%, þó aðeins í 35 milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 6,80 krónum og hefur ekki verið hærra í tvo mánuði.
Fjögur félög lækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins en það voru Sjóvá, Síldarvinnslan, Alvotech og Eimskip.