Úrvalsvísitalan lækkaði um 2% í 2,1 milljarðs króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag en helmingur félaga féll um meira en eitt prósent. Lækkanir í Kauphöllinni má að líkindum rekja til þróunar á erlendum hlutabréfamörkuðum eftir vaxtahækkanir helstu seðlabanka heims í dag og í gær.
Iceland Seafood International leiddi lækkanir í Kauphöllinni en gengi félagsins féll um 4,6% í 67 milljóna viðskiptum og stendur nú í 6,25 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Iceland Seafood hefur fallið um 58% í ár og ekki verið lægra frá skráningu á aðalmarkaðinn í október 2019.
Síminn lækkaði einnig um 4,5% í 190 milljóna króna viðskiptum. Gengi fjarskiptafélagsins stendur nú í 10,6 krónum á hlut.
Þá féllu hlutabréf Marels, Eimskips, Alvotech og Icelandair einnig um meira en 2%. Gengi Marels endaði daginn undir 500 krónum á hlut í fyrsta sinn frá 10. nóvember síðastliðnum.