Hlutabréfaverð Iceland Seafood International (ISI) hefur lækkað um meira en 8% í fyrstu viðskiptum dagsins en félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Gengi ISI stendur nú í 6,85 krónum á hlut en til samanburðar hefur dagslokagengi félagsins aldrei farið undir 7,0 krónur frá skráningu þess á aðalmarkað Kauphallarinnar í október 2019.

Iceland Seafood tilkynnti í gær að stjórn félagsins væri búin að setja breska dótturfélagið Iceland Seafood UK í söluferli en reksturinn í Bretlandi hefur gengið erfiðlega á síðustu þremur árum. Iceland Seafood hefur fært niður viðskiptavild vegna Iceland Seafood UK að fullu, eða um 1,6 milljónir evra. Það samsvarar um 238 milljónum króna miðað við gengi dagsins.

Þá færði Iceland Seafood afkomuspá um aðlagaðan hagnað fyrir skatta (e. normalised PBT) fyrir árið 2022 niður í 3,0-5,0 milljónir evra, en nýja spáin nær ekki til rekstursins í Bretlandi á síðustu tveimur mánuðum ársins vegna ákvörðunar um að yfirgefa Bretlandsmarkað.