Icelandair hefur fellt niður ferðir sem tengjast sölu á pakkaferðum fyrirtækisins undir vörumerkinu Icelandair holidays vegna verkfalla starfsfólks á hótelum.
Í svari við fyrirspurn mbl.is segir að ekki hafi tekist að finna viðeigandi gistingu á öðrum hótelum.
„Verkfallið hefur ekki haft áhrif á flugáætlun Icelandair og við áætlum að svo muni ekki verða í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í svari við fyrirspurn mbl.is.
„Í nokkrum tilfellum hefur þurft að aflýsa pakkaferðum Icelandair Holidays, ef gisting á einu af þeim hótelum í Reykjavík sem hafa orðið fyrir áhrifum verkfallsins er innifalin og ekki hefur tekist að tryggja sambærilega gistingu. Umfangið á þessu er ekki mikið í heildarsamhengi hlutanna.“