Úrvalsvísitalan lækkaði um tæp 2% í 3,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Nítján félög aðalmarkaðarins lækkuðu og þrjú hækkuðu i viðskiptum dagsins.

Amaroq Minerals, JBT Marels og Icelandair leiddu lækkanir en gengi hlutabréfa félaganna þriggja lækkuðu um 4% eða meira í dag.

Amaroq lækkaði mest eða um 4,4% í yfir hundrað milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins stendur nú í 152,5 krónum á hlut og hefur því lækkað um 27% frá því að náði hæstu hæðum í 209 krónum 14. janúar síðastliðinn. Gengi Amaroq var síðast lægra í byrjun desember.

Hlutabréfaverð JBT Marels féll um 4,2% í tuttugu milljóna veltu og stóð í 16.000 krónum við lokun Kauphallarinnar. Dagslokagengi félagsins hefur aldrei verið lægra en viðskipti með bréf sameinaðs félags Marels og JBT hófust 3. janúar síðastliðinn.

Þá lækkuðu hlutabréf Icelandair um 4% í 113 milljóna króna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,08 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í lok október síðastliðins. Hlutabréfaverð flugfélagsins hefur lækkað um 26% í ár.