Icelandair hefur tilkynnt um að borginni Verona á Ítalíu verði bætt við áætlunarflug félagsins. Flogið verður einu sinni í viku á tímabilinu 20. desember næstkomandi til 2. mars 2024. Verona er nýr áfangastaður í leiðakerfi Icelandair en félagið hefur áður flogið til borgarinnar í áætlunarflugi.
Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu Icelandair, segir Verona vera spennandi áfangastað og frábæra viðbót við úrval skíðaferða sem Icelandair býður upp á. Með samþættingu Icelandair og Vita hefur félaginu gefist tækifæri til að bæta við áfangastöðum og bjóða upp á fjölbreyttari ferðir, hvort sem er skipulagðar ferðir eða flug eingöngu.
Sögusvið Shakespeare og vinsæl skíðasvæði
Verona er vinsæll áfangastaður fyrir skíðaferðir og bætist við framborð Icelandair fyrir skíðaáhugafólk. Aðrir slíkir áfangastaðir næsta vetur eru Munchen, Salzburg, Zurich, Osló og Vancouver.
Verona er sögufræg borg í Norður-Ítalíu, þekkt fyrir fallegan arkitektúr, tónlist og sem sögusvið skáldsagna William Shakespeare. Borgin er einnig heimkynni hinnar frægu Arena di Verona, hringleikahúss sem er enn starfrækt undir óperu, tónleika og aðra viðburði. Skíðasvæði Verona eru þó það sem dregur marga að sér á veturna.