Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 2,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fjórtán félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og fimm hækkuðu.
Mesta breytingin var á gengi hlutabréfa Icelandair sem lækkuðu um 3,5% í ríflega 200 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Icelandair stendur nú í 1,11 krónum á hlut og er um 24% lægra en í upphafi árs. Dagslokagengi flugfélagsins hefur ekki verið lægra síðan 5. nóvember síðastliðinn.
Undanfarna daga hefur verið rætt um áhyggjur af fjölda ferðamanna sem koma til landsins í ár. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Jóhannes Þór Skúlason, sagði við RÚV um helgina að viðvörunarbjöllur séu farnar að hringja vegna áhrifa tollastríðs. Ferðamálastjóri, Arnar Már Ólafsson, sagði við mbl.is að ferðamönnum hefði fækkað bæði í janúar og febrúar miðað við fyrri spá.
Hlutabréfaverð Play hækkaði hins vegar um 3% í átta viðskiptum samtals nema þó aðeins 2 milljónum króna. Gengi Play stendur nú í 0,67 krónum á hlut og er enn um 33% lægra en í upphafi árs.
Auk Icelandair þá lækkuðu hlutabréf Haga, Reita, Amaroq, Arion banka, Ísfélagsins, Skaga og Kviku banka um 1,5% eða meira.
Þá hækkuðu hlutabréf Nova, Sýnar, Oculis og JBT Marels um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins.