Icelandair hefur komist að samkomulagi við Dubai Aerospace Enterprise (DAE) um langtímaleigu á tveimur nýjum Boeing 737 MAX 8 flugvélum. Gert er ráð fyrir að Boeing afhendi félaginu vélarnar í vor. Með þessari viðbót verður félagið með fjórtán MAX vélar í rekstri næsta sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar.
„Við erum mjög ánægð að tilkynna þessa nýju samninga við DAE, fyrirtæki sem við höfum átt í viðskiptum við um árabil. Við sáum tækifæri og þörf til að bæta við Boeing 737 MAX vélum í flota okkar vegna áframhaldandi uppbyggingar leiðakerfisins og hagfelldra aðstæðna á flugvélamörkuðum,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.
Bogi
lýsti því fyrst yfir á uppgjörfundi í byrjun síðasta sumars
að Icelandair væri alvarlega íhuga að bæta við tveimur MAX vélum til viðbótar við þáverandi áætlanir. Það hafi verið stórt verkefni að taka MAX vélarnar aftur inn í flota félagsins eftir að kyrrsetningu þeirra var aflétt en verkefnið hafi gengið vel fyrir sig. Þá sagði Bogi að eldsneytisnotkunin hafi verið minni og flugdrægnin meiri heldur en gert var ráð fyrir þegar vélarnar voru pantaðar árið 2012. Hann minntist aftur á þetta í tilkynningu Icelandair í kvöld.
„MAX vélarnar hafa reynst okkur afar vel, enn betur en búist var við, bæði hvað varðar drægni og eldsneytisnýtingu. Þær eru af nýrri kynslóð umhverfisvænni flugvéla og því jafnframt mikilvægur þáttur í því að draga úr kolefnislosun í starfsemi okkar,“ segir Bogi.
Sjá einnig:
Icelandair lýkur fjármögnun á MAX vélum
Í byrjun október tilkynnti Icelandair um samning við Aviation Capital Group (ACG) um fjármögnun þriggja Boeing 737 MAX flugvéla. Þar af seldi Icelandair tvær MAX 8 vélar og tók þær aftur á leigu auk þess að semja um fjármögnunarleigu á einni MAX 9 vél. Þá kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að þessar þrjár vélar yrðu afhentar í desember 2021 og janúar 2022.
Í flota Icelandair næsta sumar verða nú tíu MAX 8 þotur og fjórar MAX 9 vélar. Í fjárfestakynningu fyrir hlutafjárútboð Icelandair í september 2020 var gert ráð fyrir að MAX vélarnar yrðu tólf talsins út árið 2025. Bogi sagði síðasta sumar að Icelandair væri að endurskoða langtímaflotastefnu félagsins og að þar yrði m.a. horft til að finna arftaka Boeing 757 vélanna. Eftirfarandi mynd sýnir eldri áætlanir Icelandair úr fjárfestakynningum félagsins frá því í sumar og haustið 2020.
Myndin til vinstri er tekin úr fjárfestingakynningu Icelandair fyrir annan ársfjórðung 2021 og myndin til hægri er tekin úr fjárfestakynningu fyrir hlutafjárútboð Icelandair haustið 2020.