Icelandair hefur uppfært afkomuspá sína fyrir árið 2023 og gerir nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 50-65 milljónir dala sem samsvarar 3,3-4,3% af tekjum. Fyrri spá flugfélagsins gerði ráð fyrir að EBIT-hagnaður yrði á bilinu 4-6% í ár.

Icelandair gerir þó áfram ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins eftir fjármagnsliði og skatta fyrir árið í heild, að því er segir í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar.

Uppfærð afkomuspá, sem byggir á stjórnendauppgjöri félagsins fyrir júlí og ágúst sem liggur nú fyrir, gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1,5 milljarðar dala fyrir árið 2023.

„Afkoma Icelandair í þessum mánuðum endurspeglar góðan árangur í farþega- og leiguflugsstarfsemi félagsins sem skilar töluvert betri rekstrarniðurstöðu en á sama tíma í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

„Fraktstarfsemi félagsins hefur hins vegar reynst mjög krefjandi og sá afkomubati sem gert var ráð fyrir við birtingu annars ársfjórðungs hefur ekki skilað sér. Frá sama tíma hefur eldsneytisverð hækkað um tæplega 30%.“

Rík áhersla á að koma fraktstarfseminni aftur í plús

Icelandair segir horfur í farþegaflugi góðar og bókunarstaða vera sterka það sem eftir lifir árs. Sömuleiðis séu horfur í leiguflugsstarfsemi góðar. Þá sé lögð rík áhersla á að koma fraktstarfseminni aftur í jákvæðan rekstur.

„Fjárhagsstaða Icelandair er mjög sterk og félagið vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs vaxtar.“

Þegar hefur verið gengið frá samningum um þrjár farþegavélar til viðbótar í flota félagsins fyrir næsta ár sem munu skapa tækifæri fyrir félagið til að stækka leiðakerfið og auka framboð um í kringum 10% á milli ára.“

Samningar um eldsneytisvarnir út desember

Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að vegið meðalverð á hvert tonn af þotueldsneyti (án tillits til varna) verði 990 USD/tonn út tímabilið. Félagið hefur gert samninga um eldsneytisvarnir sem samsvara um 43% af eldsneytisnotkun frá september til desember á meðalverðinu 864 USD/tonn.

Áætlað er að gengi USD á móti íslensku krónunni verði að meðaltali 134 það sem eftir lifir árs.