Icelandair hefur nú sameinað starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu, utan flugvallarstarfsemi, í nýju Icelandair húsi á Flugvöllum í Hafnarfirði. Um 550 munu hafa starfsstöð í húsinu.

Við flutninginn mun skrifstofuhúsnæði félagsins minnka um 1.300 fermetra með tilheyrandi hagræði í rekstri.

Húsnæðið er viðbygging við þjálfunarsetur Icelandair sem reist var árið 2014 og mun bókleg og verkleg þjálfun áhafna, skrifstofustarfsemi, þjónustuver, þjónustuskrifstofa og stjórnstöð sameinast undir einu þaki, auk þess sem flugáhafnir koma saman í húsinu áður en haldið er til Keflavíkurflugvallar.

Húsið er hannað af Nordic Office of Architecture. Í tilkynningu Icelandair segir að við hönnun hafi sveigjanleiki, hagkvæmni og sjálfbærni verið haft að leiðarljósi, bæði hvað varðar byggingu og rekstur til framtíðar.

Byggingin verður BREEAM vottuð sem staðfestir að húsið hafi verið byggt með það í huga að áhersla sé á umhverfis- og öryggisþætti, góða orkunýtingu sem og heilsu og vellíðan starfsfólks.

„Húsið er hannað og byggt á þann hátt að félagið geti vaxið innan þess og var lögð var sérstök áhersla á fjölbreytt vinnurými og teymisvinnu.“

Nýjar höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði.
© Árni Sæberg (M Mynd/Árni Sæberg)

„Í nýja Icelandair húsinu á Flugvöllum höfum við sameinað stóran hluta starfsfólks okkar á einum stað. Þar höfum við skapað fjölbreytta og framúrskarandi vinnuaðstöðu í takt við metnað okkar að vera eftirsóttasti og besti vinnustaður landsins. Það er bæði ánægjulegt og hagkvæmt að búa nú yfir miðstöð þar sem áhafnir á leið í flug eða þjálfun og annað starfsfólk kemur saman. Svo er að sjálfsögðu einnig mikill ávinningur í að vera nær Keflavíkurflugvelli þar sem stærstur hluti af okkar starfsemi fer fram,“ segir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar.