Icelandair flutti 610 þúsund farþega í júlí 2024 sem er 8% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Þar af voru 33% á leið til Íslands, 17% frá Íslandi, 45% voru tengifarþegar og 6% ferðuðust innanlands.
„Farþegar okkar í júlí voru 8% fleiri en í fyrra og um er að ræða metfjölda í einum mánuði. Þrátt fyrir minni eftirspurn eftir ferðum til Íslands á milli ára, náðum við betri sætanýtingu en í sama mánuði í fyrra,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Sætanýting var þá 87,1% og stundvísi var 80,3%, 5,9 prósentustigum meiri en í fyrra. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 2,6 milljónir farþega, 7% fleiri en í fyrra.
„Það er ánægjulegt að sjá áframhaldandi góða stundvísi og þann frábæra árangur sem við höfum náð með sameiginlegu átaki alls starfsfólks,“ segir Bogi jafnframt.