Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 2,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,3% í 450 milljóna viðskiptum.

Hlutabréfaverð Icelandair um 2%, hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins, í 290 milljóna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,73 krónum á hlut eftir 10,9% hækkun á einni viku.

Fjögur félög á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en 1% í dag en það voru Hagar, Skel, VÍS og Reginn.

Á First North-markaðnum var nærri 290 milljóna króna velta með hlutabréf Hampiðjunnar sem hækkuðu um 2,2%. Gengi Hampiðjunnar stendur nú í 118,6 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í ágúst síðastliðnum.

Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 8,7 milljörðum í dag. Krafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um 2-3 punkta en krafa verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði í viðskiptum dagsins.