Gengi tólf félaga hækkaði og sjö félaga lækkaði í tveggja milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði um eitt prósentustig. Marel hækkaði mest allra félaga, um 3% í 200 milljóna veltu.
Þá hækkaði gengi bréfa Icelandair í dag um 2,4% í 280 milljón króna veltu. Gengi flugfélagsins hefur hækkað um 5,5% frá byrjun árs og stendur nú í 1,7 krónum.
Mest velta var með bréf Reita, en gengi félagsins lækkaði um 1,7% í 316 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Alvotech um 1,36% í 117 milljóna veltu.
Gengi bréfa Origo lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um tæp 2% í óverulegum viðskiptum. Gengi Skel fjárfestingafélags lækkaði þá um 1,95% og gengi Regins um 1,8%.
Á First North markaðnum hækkaði gengi Play um 2,65% í sjö milljón króna veltu. Þá hækkaði gengi bréfa málmleitarfélagsins Amaroq um tæp 1,3% í 50 milljóna veltu.