Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði í Kauphöllinni í dag eftir lækkanir síðustu þrjá viðskiptadaga en ætla má að hreyfingar á heimsmarkaðsverði á olíu hafi þar áhrif.
Eftir ágætis hækkanir í byrjun mánaðar, meðal annars vegna stigvaxandi átaka fyrir botni Miðjarðarhafs, byrjaði olíuverð að lækka töluvert í morgun.
Verðið á tunnunni af Brent-hráolíu, sem er meðal annars notuð í eldsneyti, lækkaði um tæp 5% í dag og stendur í 73,8 dölum þegar þetta er skrifað.
Gengi Icelandair leiddi hækkanir á aðalmarkaði og fór upp um 2,5% í um 202 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi flugfélagsins var 1,2 krónur en gengið hefur eytt stórum hluta ársins undir einni krónu.
Hlutabréfaverð Play hækkaði einnig um 1% í örviðskiptum og var daglokagengið 1,92 krónur.
Viðsnúningur varð á gengi Reita í dag en hlutabréfaverð fasteignafélagsins byrjaði mánuðinn á lækkunum og fór gengið úr 97,5 krónum í 93,5 krónur. Eftir um tæplega 2% hækkun í dag var dagslokagengið 95 krónur en gengi Reita hefur hækkað um 15% á árinu.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,1% og var heildarvelta í kauphöllinni 3,1 milljarður.