Hluta­bréfa­verð Icelandair hækkaði í Kaup­höllinni í dag eftir lækkanir síðustu þrjá við­skipta­daga en ætla má að hreyfingar á heims­markaðs­verði á olíu hafi þar á­hrif.

Eftir á­gætis hækkanir í byrjun mánaðar, meðal annars vegna stig­vaxandi á­taka fyrir botni Mið­jarðar­hafs, byrjaði olíu­verð að lækka tölu­vert í morgun.

Verðið á tunnunni af Brent-hrá­olíu, sem er meðal annars notuð í elds­neyti, lækkaði um tæp 5% í dag og stendur í 73,8 dölum þegar þetta er skrifað.

Gengi Icelandair leiddi hækkanir á aðal­markaði og fór upp um 2,5% í um 202 milljón króna við­skiptum.

Dagsloka­gengi flug­fé­lagsins var 1,2 krónur en gengið hefur eytt stórum hluta ársins undir einni krónu.

Hluta­bréfa­verð Play hækkaði einnig um 1% í ör­við­skiptum og var dag­loka­gengið 1,92 krónur.

Við­snúningur varð á gengi Reita í dag en hluta­bréfa­verð fast­eigna­fé­lagsins byrjaði mánuðinn á lækkunum og fór gengið úr 97,5 krónum í 93,5 krónur. Eftir um tæp­lega 2% hækkun í dag var dagsloka­gengið 95 krónur en gengi Reita hefur hækkað um 15% á árinu.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 0,1% og var heildar­velta í kaup­höllinni 3,1 milljarður.