Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,4% í 2,7 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Eimskips sem lækkuðu um 2,7% í ríflega 400 milljóna króna viðskiptum. Gengi Eimskips stendur nú í 545 krónum á hlut, og hefur þrátt fyrir lækkun dagsins hækkað um 7% á síðastliðnum mánuði.
Auk Eimskips þá lækkuðu um útgerðarfélögin Síldarvinnslan og Brim um 1,2%-2,1% í dag, þó í lítilli veltu. Gengi Brims féll um 2,1% og stendur nú í 93,5 krónum. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar féll um 1,2% og stendur í 121 krónu.
Icelandair hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,8% í 178 milljóna veltu. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,84 krónum á hlut og er nú á sama stað og fyrir mánuði síðan.
Á First North-markaðnum lækkuðu hlutabréf Play um 3,1% í 8 milljóna króna veltu og hafa nú aldrei verið lægri frá skráningu í júlí 2021. Gengi Play stendur nú í 12,6 krónum en dagslokagengi flugfélagsins hafði aldrei farið undir 13 krónur fyrir daginn í dag.
Hlutabréf Marels hækkuðu um 0,8% í 320 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 538 krónum á hlut.